Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað fyrr í dag að færa almannavarnastig af neyðarstigi á hættustig vegna eldgossins sem hófst 20. nóvember sl. við Sundhnúka. Sú ákvörðun dregur ekki úr viðbúnaði í tengslum við aðgerðir vegna eldgossins. Áfram verður fylgst grannt með framgangi eldgossins og mögulegum afleiðingum.
Það er á ábyrgð lögreglustjórans á Suðurnesjum að meta hvort og með hvaða hætti aðgangur að Grindavík er takmarkaður vegna jarðhræringanna. Við það mat hefur lögreglustjórinn hliðsjón af mörgum en ólíkum hagsmunum og margvíslegum gögnum og upplýsingum, m.a. hættumati Veðurstofunnar og áhættumati.
Í dag, 22. nóvember uppfærði Veðurstofan hættumat sitt og gildir það til 25. nóvember að öllu óbreyttu. Helsta breytingin er sú að heildarhætta á svæði 4, Grindavík, er nú metin töluverð (appelsínugul).
Samkvæmt mælingum og sjónskoðun sem jarðkönnunarteymi Ísor, Eflu og Verkís framkvæmdu í gær, voru engin skýr ummerki um nýjar hreyfingar á sprungum og engar nýjar sprungur sjáanlegar innan Grindavíkur. Því hefur hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingar verið lækkuð og er nú metin eins og fyrir upphaf yfirstandandi goss. Hætta á hraunflæði og gjóskufalli er einnig metin minni á svæði 4 enda stefnir ekkert hraun á bæinn. Vegna ríkjandi vindátta á næstu dögum er hætta á gasmengun metin mjög mikil. Engar breytingar eru á heildarhættu á öðrum svæðum.
Hér er hægt að sjá hættumatskort Veðurstofunnar. Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur samkvæmt samnefndum lögum stjórn, skipulag og framkvæmd tiltekinna verkefna tengd málefnum Grindavíkur. Þannig er nefndin m.a. ábyrg fyrir gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavík, í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Áhættumat er heildarferli sem felur í sér að greina og lýsa áhættu. Í því felst að ákvarða umfang og eðli áhættu og/eða áhættuþátta og samanburður á niðurstöðum við áhættuviðmið til að ákvarða hvort áhættan sé óásættanleg. Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur fengið Örugg verkfræðistofu til að gera áhættumatið sem var afhent Framkvæmdanefndinni og Ríkislögreglustjóra í dag, 22. nóvember 2024.
Í áhættumatinu segir að samspil hættuþátta, fólksfjölda, viðbragða, forvarna og innviða hafi áhrif á loka áhættustigið. Fólksfjöldi í Grindavík og ágengi ferðamanna inn á hættuleg svæði kunni að hafa áhrif á áhættuna, bæði vegna beinna áhrifa á viðkomandi fólk, en einnig vegna áhættu tengdri björgun og áhrifa á önnur störf sem t.d. ekki væri hægt að sinna með sama hætti samhliða björgunarstarfi. Viðbragðsaðilar verði að geta sinnt atvikum í samræmi við skyldur.
Aukinn fólksfjöldi auki líkur á atburðum, gerir björgunarstarf mögulega flóknara, eykur rýmingartíma, eykur afleiðingar vegna annarrar hættu o.s.frv. Þannig gæti t.d. mikil gasmengun haft auknar afleiðingar í för með sér vegna umferðarslyss eða eldsvoða í Grindavík.
Áhættumat í gildi
Eldri
Áhættumat – 21.11.2024