Varnargarðurinn ofan við Nátthaga

Þegar eldgosið hófst í Geldingadal var þegar farið í að herma hraunflæði út frá mismunandi forsendum. Fljótlega kom í ljós að möguleiki væri á að hraun gæti flætt niður í Nátthaga og því yfir niðurgrafinn ljósleiðara og yfir Suðurstrandarveg. Með þetta í huga var hafinn undirbúningur að varnarvirkjum ofan við Nátthaga.  Samhliða þessari vinnu og í raun löngu áður en eldgosið hófst var búið að greina mikilvæga innviði á Reykjanesi og hvernig þeir stæðu gangvart mögulegum eldgosum. Verkfræðistofan VERKÍS var fengin til að halda utan um þessa vinnu.

Mikilvægir innviðir
Við innviðagreininguna kom í ljós að hraunrennsli í eldgosum á Reykjanesi getur verið áskorun í framtíðinni vegna mikilvægra innviða sem geta verið í hættu.  Á Reykjanesinu er að finna fimm fullmótuð eldstöðvakerfi sem eru kallast Reykjanes, Eldvörp-Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Þau eru 5-8 km breið og 30-50 km löng. Síðast gaus á Reykjanesi fyrir um 800 árum síðan en sagan gefur til kynna að það gangi í gegnum virknitímabil á 800-1200 ára fresti.

Vísindamenn hafa bent á að líklega séum við að sigla inn í virkt tímabil á Reykjanesi og það geti verið fjölda gosa að vænta á næstu áratugum á þessu svæði. Góður undirbúningur, reynsla og þekking er því mikilvæg fyrir okkur til næstu ára.

Framvindan – náttúran sem ræður
Frá því að eldgosið hófst hefur vel verið fylgst með framvindu þess, bæði af vísindamönnum og viðbragðsaðilum.  Undirbúningur á varnargörðum var í fullum gangi þegar aðstæður breyttust  hratt í Nafnlausadal og hraunið skreið fram með hraði.  Var því brugðist skjótt við og strax hafin vinna við varnargarðanna. Þegar framkvæmdir hófust var byrjað á því að setja upp neyðarruðning við hraunjaðarinn þannig að hægt væri að vinna varnargarðana. Neyðarruðningarnir héldu fyrst um sinn en nú rennur yfir þá að austanverðu og að varnargörðunum. Vegna hraðrar framvindu í dalnum var fljótlega tekin ákvörðun um að fara strax með garðana upp í átta metrar og láta þar við sitja.

Framkvæmdir ganga vel – allt efni tekið á staðnum
Framkvæmdir við varnargarðinn hafa gengið vel, og með framkvæmdinni er búin að seinka að hraun renni í Nátthaga og nái því seinna að ljósleiðara sem þar liggur og að Suðurstrandarvegi.  Með þessu er verið að standa vörð um flóttaleiðir Grindvíkinga og fjarskipti á Reykjanesi.

Í dag, 21. maí er lokið við gerð vestari varnargarðsins og verið að klára eystri garðinn upp í átta metra en það er háð því að hraunrennsli hafi náð jafnvægi og yfirborð hafi storknað.

Allt efni í garðanna er tekið á staðnum og öll framkvæmd með þeim hætti að hægt sé að slétta úr þeim aftur og færa svæðið til fyrra horfs.

Verðmæt reynsla
Það eru ekki til mikil gögn um hvernig ljósleiðurum reiðir af ef þeir varða undir hrauni og hversu langt áhrif hraunsins ná niður. En það liggur fyrir að ef hraunið nær að Suðurstrandarvegi muni hann lokast og líklega skemmast. Það er ekki flókin framkvæmda að útbúa nýjan veg en óvissan um hvenær hægt væri að fara í slíka aðgerða er nokkur þar sem bíða þyrfti gosloka. Á meðan væri þessi leið ekki fær og þar af leiðandi ekki í boði sem flóttaleið ef svo ber undir.

Nú þegar hefur mikilvæg reynsla og þekking varðandi mannvirki eins og varnargarðinn áunnist, nú er til að mynda vitað hversu langan tíma það tekur að koma þeim upp og hvernig er hægt að vinna með efni sem er á staðnum.

Frekari mælingar eru í gangi til að hámarka nýtingu úr verkefninu t.d. var settur niður ljósleiðari framan við annan garðinn í samvinnu við Mílu og Póst- og fjarskiptastofnun.  Því er núna hægt að fylgjast með og mæla áhrif hraunrennslis á ljósleiðara. Álagsmælar verða settir í varnargarðanna til að mæla áhrif hraunþrýstings á þá auk annarra mælinga. Þær munu gefa mikilvæg gögn sem munu nýtast við varnarframkvæmdir framtíðar.

Búist er við að enn meiri ávinningur muni fást úr núverandi framkvæmdum og ljóst að við erum að horfa til framtíðar varðandi frekari vinnu af þessu tagi enda margir mikilvægir innviðir sem geta verið í hættu af eldgosum í framtíðinni.

Reynsla erlendis og hérlendis nýtist vel
Samkvæmt reynslu hérlendis og erlendis eru varnargarðar raunhæfur kostur gegn hraunrennsli en þó háð takmörkunum og virka ekki fullkomlega í öllum aðstæðum. Getur engu að síður verið mikilvægur þáttur í að kaupa tíma til að setja upp frekari varnir eða bjarga verðmætum. Þróun eldsumbrotanna og varandi hraunframleiðslunnar eru á endanum ráðandi um hversu lengi og vel vörnin heldur. Hvert eldgos og atburðarrás þess eru einstök. Aðkoma sérfræðinga til að meta þróun eldsumbrota og hraunrennslis, sem og við hönnun varnanna, er lykilatriði, ásamt reyndum framkvæmdaraðila.

Á Ítalíu og Hawaii hafa varnargarðar verið reistir í þessum sama tilgangi og almennt talið að þeir hafi komið að nokkru gagni. Ekki er sama hvernig mannvirkið er hannað eða hvaða efni er notað í framkvæmdirnar. Yfirleitt er um tvær gerðir varnargarða að ræða. Leiðigarðar sem stýra hraunrennsli í ákveðna átt eða varnarmannvirki sem stöðvar eða tefur fyrir hraunrennsli. Einnig er þekkt að grafa skurði í sama tilgangi.

Þessi vitneskja hefur komið sér vel og verið nýtt í hönnun varnargarðana sem núna eru í framkvæmd.  Frá upphafi var ljóst að ekki væri raunhæft að stöðva varanlega að hraun færi í þá átt en hugsanlega væri hægt að tefja það um einhvern tíma og koma þannig í veg fyrir tjón á veginum og ljósleiðara.

Sem fyrr er það náttúran sem ræður og stjórnar ferðinni, almannavarnir munu alltaf gera sitt besta til að standa vörð um það sem almannavörnum er treyst fyrir. Líf og limir munu alltaf hafa forgang í störfum almannavarna, auk umhverfis og eigna. Innifalið í því eru allir mikilvægir innviðir fyrir daglegt líf fólks.