Viðvörun vegna íshellis í Hofsjökli

Veðurstofan hefur gefið út viðvörun vegna íshellis sem uppgötvaðist nýlega í Blágnípujökli en sá jökull gengur suðvestur úr Hofsjökli og er í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.

Texti veðurstofunnar (tekið héðan http://www.vedur.is/um-vi/frettir/ishellir-i-hofsjokli-vidvorun):

Í sjónvarpsfréttum að kvöldi 11. febrúar var fjallað um nýfundinn íshelli í Blágnípujökli, sem gengur suðvestur úr Hofsjökli. Framan við jökulinn eru nýleg merki umbrota sem þarna urðu haustið 2017. Lítið jökulhlaup hefur brotist undan jöklinum og skilið eftir jakadreif, sem nær nokkur hundruð metra fram fyrir jökuljaðarinn. Ekki sjást merki hlaupsins á vatnshæðarmælum eða skjálftamælum.

Hópur jeppamanna fór á staðinn 3. febrúar og gengu leiðangursmenn inn í botn íshellisins, sem er um 150 m langur. Þeir höfðu meðferðis gasmælitæki sem skráði styrk súrefnis, kolmónoxíðs, brennisteinsvetnis (H2S) og brennisteinsdíoxíðs (SO2). Brennisteinsfýla fannst í hellinum og innst í honum mældist styrkur H2S um 60 ppm. Slíkur styrkur getur valdið öndunarerfiðleikum og augnskemmdum ef dvalið er eina klukkustund eða lengur í svo menguðu lofti.

Þess ber einnig að geta að fyrir 15 árum sást ketill myndaður af jarðhita á svipuðum stað í jöklinum og var þá mjög sterk brennisteinslykt á svæðinu. Ekki er því hægt að útiloka að virknin í hellinum færist í aukana. Rétt er að benda á að lykt af H2S finnst ekki lengur þegar styrkur þess fer yfir 150 ppm og er því óráðlegt að fara inn í þennan helli nema hafa með sér gasmælitæki sem gefur til kynna hvort styrkur hættulegra gastegunda sé yfir viðmiðunarmörkum.

Auk hættu af eitruðum lofttegundum skal bent á að ísflekar virðast sums staðar hanga lausir í lofti hellisins og getur því verið hættulegt að fara þar um. Bent er á  skýrslu á vef Vatnajökulsþjóðgarðs um sumar helstu hættur sem varast ber í íshellum.

Enslish here, ensk útgáfa hér http://en.vedur.is/about-imo/news/ice-cave-in-hofsjokull-a-warning

Auk þess kom fram hjá fréttastofu RÚV að þau hafi heimildir fyrir því að liðið hafi yfir fólk sem farið hafi inn í hellinn.  Sjá frétt RÚV hér http://www.ruv.is/frett/vedurstofa-varar-vid-ishelli-i-hofsjokli

Skýrsla af vef Vatnajökulþjóðgarðs um helstu hættur sem ber að varast í íshellum má finna HÉR