112 dagurinn – við erum öll í almannavörnum

Í dag er 112 dagurinn, sem er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu . Almannavarnir eru þema dagsins og er  áhersla lögð á áfallaþolið samfélag með viðbúnað og viðbrögð við náttúruhamförum, sérstaklega jarðskjálftum og óveðri. Að þessu sinni er haldið upp á að 20 ár eru liðin frá því að Neyðarlínan tók evrópska neyðarnúmerið 112  í notkun hér á landi. Það leysti af hólmi 146 mismunandi símanúmer viðbragðsaðila.

Eitt samræmt neyðarnúmer sem allir þekkja skiptir máli þegar bregðast þarf hratt við neyðarástandi. Neyðarlínan gegnir lykilhlutverki í almannavörnum með móttöku og úrvinnslu neyðarbeiðna í neyðarnúmerið 112 og rekstri TETRA-fjarskiptakerfisins sem viðbragðsaðilar nota innbyrðis og sín á milli. Í tilefni dagsins kom út blað tileinkað112 deginum 
.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fagnar þessum 20 ára áfanga með Neyðarlínunni á 112 deginum, sem haldinn verður hátíðlegur í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í dag klukkan 16:00 og óskar Neyðarlínunni jafnframt  velfarnaðar í framtíðinni um leið og þakkað er farsælt samstarf.