Almannavarnastig fært á hættustig

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur ákveðið að lækka almannavarnastig frá neyðarstigi niður á hættustig vegna kórónuveiru faraldursins (Covid-19). Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 6. mars s.l. en fyrsta smit var staðfest 28. febrúar hér á landi.

Ferli sem fór í gang vegna neyðarstigs er lokið, en sóttvarnalæknir og stýrihópur um verkefni sem snýr að Covid-19, fylgjast eftir sem áður með þróun faraldursins og taka ákvarðanir miðað við framvindu hans.

Frá því að neyðarstigi var lýst yfir hafa 10 manns látist, 1804 smit hafa verið staðfest, yfir 20.000 farið í sóttkví og rétt um 59.000 sýni verið tekin. Hópsmit komu upp á nokkrum stöðum og þurfti þar að setja stífar reglur um samkomubann, sums staðar máttu ekki fleiri en 5 koma saman um tíma. Margir hafa farið í sjálfskipaða sóttkví, fyrirtæki þurftu mörg hver að gjörbreyta vinnuferlum sínum og skipta starfsmönnum upp í hópa sem ekki gátu umgengist hvern annan.  Mörg fyrirtæki hafa neyðst til að grípa til uppsagna og voru um 34.000 manns án atvinnu í kjölfar faraldursins í lok apríl s.l.

Skilgreining á hættustigi vegna heimsfaraldurs er eftirfarandi: Umtalsverðar hópsýkingar brjótast út hjá mönnum en þær eru enn staðbundnar. Veiran aðlagast mönnum í vaxandi mæli og umtalsverð hætta er á heimsfaraldri. Sýking kann að hafa verið staðfest hér á landi en lýsa má hættustigi þó sýking hafi ekki borist til landsins.
Faraldur er í rénun, færri tilfelli greinast en sýking er enn til staðar í samfélaginu. Enn er hætta á að faraldur taki sig upp aftur.
Ráðstafanir – faraldur í rénun • Áframhaldandi vöktun, greining og sýnatökur. • Smitrakning, sóttkví og einangrun beitt eftir þörfum. • Rýni og lærdómur á aðgerðum á neyðarstigi.
Almenningur er hvattur til þess að fara eftir leiðbeiningum frá Landlækni og fylgjast með tilkynningum á heimasíðum www.almannavarnir.is og www.landlaeknir.is