Kortlagning á sprungum í Grindavík

Í tilkynningu sem Almannavarnir sendu 13. janúar sl. kom fram að næstu vikur þar á eftir ætti að meta nánar stöðu mála og þá hættu sem stafar af sprungum og skyndilegum sprunguopnunum í Grindavík. Þverfaglegur hópur sérfræðinga var fengin í verkefnið. Í forgangi var að skoða samgönguleiðir, síðan íbúða- og iðnaðarhverfi.  Markmiðið með vinnunni var að skapa grundvöll fyrir endurskoðun áhættumats og í kjölfar þess endurskoðun og afléttingu takmarkana um aðgengi í Grindavík. 

Staðan núna er sú að búið er að kortleggja hluta af Grindavík, samhliða þessari vinnu er verið að útbúa aðgerðaráætlun sem tilgreinir staðlað verklag um hvernig staðið er að rannsóknum og viðgerðum þegar og ef nýjar sprungur ógna öryggi innviða og fólks á svæðinu.

Verkefnið snýst um að rannsaka og kortleggja sprunguhættu með það fyrir augum að tryggja aðgengi viðbragðsaðila og íbúa Grindavíkur.  Einnig er mikilvægt að auka öryggi þeirra sem eru í verðmætabjörgun á svæðinu.

Framkvæmd rannsókna hefur verið skipt niður í þrjá fasa.

Fasi 1 – Tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun.
Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja.
Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar bússetu á svæðinu.

Í fasa 1 og 2 er áhersla lögð á jarðkönnun á götum og vegum svo aðilar geti ferðast um bæinn. 
Í fasa 3 felst jarðkönnun í heildarskoðun á bænum sem byggir á rannsóknum í fasa 1 og 2 en nær þá yfir öll opin svæði.

Reiknað er með að ljúka fasa 1 og 2 fyrir miðjan mars. Fasi 3 hefst ekki fyrr en í vor þegar snjóa leysir.

Aðilar sem koma að rannsóknunum.

  • Verkís verkfræðistofa
  • ÍSOR
  • Vegagerðin
  • Efla verkfræðistofa
  • Háskóli Íslands