Samantekt um stöðumat jarðkönnunar í Grindavík, 05.04.2024

Unnið hefur verið að jarðkönnun í Grindavík nú í rúmlega tvo mánuði. Stefnt er að því að ljúka við rannsóknir í fasa 1 og 2 í þessum mánuði og er þá eftir áframhaldandi rannsóknir á opnum svæðum, lóðum og á þekktum hættulegum sprungusvæðum. Verkefnið er í góðum farvegi og góð reynsla og þekking á svæðinu hefur skapast innan jarðkönnunarteymisins. Endanleg ákvörðun um mótvægisaðgerðir eins og lokun á götum og svæðum, og viðgerðir einstakra svæða er í höndum Grindavíkurbæjar.  Hér að neðan er farið yfir hver framvindan er í verkefninu.

Framvinda jarðkönnunar
Í aðgerðaráætlun sem gerð var fyrir jarðkönnunina var Grindavíkurbæ skipt niður í hólf og í hverju hólfi var skilgreind undirhólf, vegir, götur, vinnusvæði eða opin svæði sem öll eru til skoðunar. Framkvæmd jarðkönnunar var í upphafi flokkuð í þrjá fasa og framvinda metin fyrir hvern fasa fyrir sig.

Fasi 1 –  Tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun (götur og vegir)
Framkvæmd hefur verið sjónskoðun á öllum götum og vegum í Grindavík ásamt skoðun með Cobra jarðsjám sem gengið var með til að auðkenna sprungur og færslur í efsta hluta jarðlaga. Ef vísbendingar voru um holrými var svæðið skannað með svokallaðri Subecho jarðsjá sem sér dýpra niður í jörðina. Ef sú skoðun benti til að miklar líkur væru á holrými á svæðinu var það svæði skoðað betur með segulsjá,  viðnámsmælingum og öðrum rannsóknum til að staðfesta hvort svo væri.

Þéttbýli – Vesturhluti Grindavíkur:
Frumniðurstöður hafa verið gefnar út í minnisblaði fyrir vesturhluta bæjarins þar sem voru tilgreind níu svæði þar sem vísbendingar voru um holrými. Þessi svæði voru girt af á meðan jarðkönnun stóð. Á nokkrum stöðum voru framkvæmdar álagsprófanir til að kanna burðargetu svo hægt væri að opna götur fyrir umferð. Einstaka hættuminni svæði hafa verið sett í vöktun.

Þéttbýli – Austurhluti Grindavíkur:
Unnið er eftir samkvæmt sama fyrirkomulagi austan Víkurbrautar. Frumrannsóknum er að ljúka og unnið er að tveimur minnisblöðum með frumniðurstöðum annarsvegar norðan Austurvegar og hinsvegar sunnan Austurvegar.

Utan þéttbýlis:
Túlkun jarðkönnunar er í vinnslu á götum og vegum utan þéttbýlis.  

Mynd 1 sýnir framvindu jarðkönnunar á götum og vegum sem tilheyra fasa 1.

Mynd 1. Framvinda rannsókna í fasa 1.

  • Ekki hafið (rautt): Vegir og götur þar sem jarðkönnun er ekki hafin. Þetta eru götur á afgirtum svæðum eða götur skilgreindar með lægri forgang í bænum.
  • Í vinnslu (gulur): – Svæði þar sem túlkun er í vinnslu.
  • Þörf á aðgerðum (appelsínugulur): – Svæði þar sem túlkun er lokið og frekari rannsókna/aðgerða er þörf á svæðinu til að ljúka jarðkönnun.
  • Lokið (grænn):  – Svæði þar sem jarðkönnun á götum og vegum er lokið og ekki er talin þörf á frekari rannsóknum eða aðgerðum.

Áréttað er að í fasa 1 er jarðkönnun eingöngu gerð á vegum og götum Grindavíkur. Af því leiðir að ekki er búið að klára að jarðkanna íbúðasvæði eða önnur svæði í Grindavík, t.a.m. göngustíga, bílastæði, lóðir (bæði einkalóðir og sameiginlegar), opin svæði við og á milli fasteigna og önnur opin og/eða sameiginleg svæði innan Grindavíkur eða á víðavangi.

Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja (vinnusvæði fyrirtækja)
Götur vinnusvæða tilheyra fasa 1 og túlkun á þeim er í vinnslu. Búið er að framkvæma sjónskoðun á vinnusvæðum fyrirtækja og skanna flest plön og bílastæði með Cobra jarðsjám.  Samhliða niðurstöðum úr fasa 1 er verið að vinna í túlkun jarðkönnunar á vinnusvæðum.  Á svæðum þar sem túlkun á gögnum frá sjónskoðun og Cobra járðsjám gefur til kynna holrými, er svæðið skannað nánar með Subecho jarðsjá. Þar sem vísbendingar hafa fundist um holrými er holrýmið staðfest með öðrum aðferðum svo sem með segul og/eða viðnámsmælingum.

Þéttbýli – Vinnusvæði
Búið er að sjónskoða og mæla með jarðsjám, plön og bílastæði við vinnusvæði innan þéttbýlis í Grindavík, að undanteknu iðnaðarsvæði við Eyjasund þar sem sjónskoðun hefur farið fram. Svæðið er illa farið og ekki ráðlegt að ganga með jarðsjá yfir svæðið. Áætlað er að fljúga yfir það svæði með segulmæli. Þeim rannsóknum verður lokið um miðbik apríl 2024. Unnið er að túlkun á gögnum frá sjónskoðun og jarðsjármælingum.

Utan þéttbýlis – Vinnusvæði:
Búið er að sjónskoða öll skilgreind vinnusvæði vestan við Grindavík nema golfvöllinn. Svæði við fiskeldi Samherja, kirkjugarðinn og Hafrannsóknarstofnun er búið að skanna með Cobra jarðsjá. Ekki var unnt að skanna svæði Matorku með Cobra jarðsjá þar sem yfirborðið er gróft en áætlað er að fljúga yfir svæðið fyrir miðjan apríl með segulsjá. Golfvöllurinn verður fyrst skannaður með segulsjá frá dróna áður en ákveðið verður að fara í sjónskoðun á vellinum.

Mynd 2 og Mynd 3 sýna framvindu jarðkönnunar á vinnusvæðum fyrirtækja í Grindavík sem tilheyra fasa 2.

Mynd 2. Framvinda jarðkönnunar í fasa 2 innan þéttbýlis.

Mynd 3. Framvinda jarðkönnunar í fasa 2 utan þéttbýlis.

Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar búsetu á svæðinu (öll önnur svæði innan þéttbýlis)

  • Rannsóknir í fasa 3 eru hafnar, en unnið er eftir sérstöku verklagi fyrir rannsóknir á opnum svæðum þar með talið lóðum bæjarins og garða við fasteignir. Sjónskoðun á görðum við fasteignir hófst í lok mars og búið er að ganga rúmlega helming af görðum bæjarins. Eftir að niðurstöður frá sjónskoðun liggja fyrir verður ákveðið á hvaða svæðum þörf er á nánari rannsóknum og þá með hvernig aðferð. Niðurstöður túlkanna úr fasa 1 og 2 munu einnig nýtast við þessa greiningu.

Mynd 4 sýnir stöðu jarðkönnunar á opnum svæðum bæjarins og görðum við fasteignir sem tilheyra fasa 3.

Mynd 4. Framvinda jarðkönnunar í fasa 3.Vinna heldur áfram við skoðun á stærstu sprungum bæjarins sem hafa hreyfst hvað mest í jarðhræringunum. Notast er við segulmæli í dróna og viðnámsmælingar til að rannsaka hvaða hlutar sprungnanna eru opnar og hverjir eru lokaðir.

Jarðkönnun á þessum sprungum fellur undir svæði sem tilheyra öllum þremur fösum jarðkönnunarinnar. Sprungurnar eru á mörgum stöðum óaðgengilegar og hættulegar og því hafa þau svæði ekki verið í forgangi. Mynd 6 sýnir þau svæði með gráum lit sem eru skilgreind sem þekkt sprungusvæði.

Mynd 5. Þekkt áhrifasvæði sprungna innan Grindavíkur.

Samantekt
Unnið hefur verið að jarðkönnun í Grindavík nú í rúmlega tvo mánuði. Stefnt er að því að ljúka við rannsóknir í fasa 1 og 2 í þessum mánuði og er þá eftir áframhaldandi rannsóknir á opnum svæðum, lóðum og á þekktum hættulegum sprungusvæðum. Verkefnið er í góðum farvegi og góð reynsla og þekking á svæðinu hefur skapast innan jarðkönnunarteymisins. Rúmlega 30 aðilar hafa komið að verkinu frá upphafi.

Verklagið hefur þróast og nú hefur verið við tveimur mæliaðferðum, segulmælingum og viðnámsmælingum. En þær aðferðir mæla aðra eiginleika í jarðgrunni, segulsvið og viðnám, á meðan jarðsjárnar sem notaðar voru í upphafi verkefnisins mæla rafsegulbylgjur. Teymi frá ÍSOR og HÍ vinna saman að segulmælingum á meðan hópur á vegum HÍ framkvæmir viðnámsmælingar með búnaði sem leigður er frá Bretlandi. Jarðfræðingar á vegum ÍSOR og Verkís sjá um sjónskoðun og eru jarðsjármælingar með Subecho jarðsjá og boranir framkvæmdar af Vegagerðinni.

Á næstu vikum er er unnið að því að klára allar rannsóknir á vinnusvæðum með subecho djúp jarðsjá og segulmælingum sem staðfesta vísbendingar um holrými og stórar sprungur.

Framhald og áskoranir
Jarðkönnunarteymið stefnir á að skila af sér frumniðurstöðum fyrir fasa 1 og 2 á komandi vikum. Þar verða skilgreind svæði þar sem eru vísbendingar um holrými sem teymið mun skoða nánar. Mikil umbrot hafa verið á svæðinu og jarðkönnun gefur tilkynna að þessi svæði skipta tugum. Það mun taka tíma að klára jarðkönnun þessara svæði.

Enn ríkir óvissa um opin svæði í Grindavík. Rannsóknir í fasa 3 eru hafnar en vonast er til þess að afköstin aukist með aukinni þekkingu á svæðinu og þeim tækjum og búnaði sem verið er að nota. Einnig er vor í lofti og líkur á að eldgosinu fari að linna.

Rannsóknir á þessum svæðum fer fram með mikilli varkárni.

Mótvægisaðgerðir
Upplýsingar úr jarðkönnuninni eru notaðar til að ákveða mótvægisaðgerðir í bænum. Bráðaviðgerðir hafa verið gerðar á götum sem eru illa farnir. Götur þar sem eru vísbendingar um holrými eru álagsprófuð af vettvangsstjórn til að tryggja nægja burðargetu fyrir umferð. Allar götur þar sem eru vísbendingar um holrými eru settar í vöktun þar sem mælt er regluleg aflögun á yfirborði. Svæði sem eru mjög illa farin eru girt af til að fyrirbyggja slys á fólki.

Endanleg ákvörðun um mótvægisaðgerðir eins og lokun á götum og svæðum, og viðgerðir einstakra svæða er í höndum Grindavíkurbæjar. 

Sjá tilkynningu frá 21. febrúar þar sem farið er yfir stöðuna á jarðkönnuninni frá í febrúar sl.: https://www.almannavarnir.is/frettir/samantekt-um-jardkonnun-i-grindavik-21-02-2024/

Tilkynningin uppfærð 10.4.24