Samantekt um jarðkönnun í Grindavík 21.02.2024

Sem komið er hefur jarðkönnun í Grindavík eingöngu verið gerð á vegum og götum Grindavíkur og að hluta á vinnusvæðum fyrirtækja. f því leiðir að ekki er búið að jarðkanna íbúðasvæði eða önnur svæði í Grindavík, t.a.m. göngustíga, bílastæði, lóðir (bæði einkalóðir og sameiginlegar), opin svæði við og á milli fasteigna og önnur opin og/eða sameiginleg svæði innan Grindavíkur eða á víðavangi.

Á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur verkfræðistofan Verkís verkstýrt jarðkönnun í Grindavík. Verkefnið er unnið samkvæmt verkefnastjórnunarkerfi Verkís, sem byggir á viðurkenndum ferlum, stöðlum og leiðbeiningum. Verkefnið er samstarf Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra við Verkís, Lögreglustjórann á Suðurnesjum, Grindavíkurbæ, Vegagerðina, verkfræðiskrifstofuna Eflu, ÍSOR og Háskóla Íslands.

Markmið jarðkönnunar
Jarðkönnunin er hluti af heildaráhættumati fyrir Grindavík og hefur þann tilgang að auka öryggi einstaklinga með því að rannsaka og kortleggja sprunguhættu. Jarðkönnunin einskorðast að mestu við þéttbýlissvæði Grindavíkurbæjar samkvæmt aðalskipulagi.

Gerð hefur verið rannsóknaráætlun sem forgangsraðar rannsóknum á svæðinu. Það er mikilvægt að opna aðgengi fyrir viðbragðsaðila, íbúa og forsvarsmenn fyrirtækja til að geta sinnt vernd og björgun verðmæta. Svæði í forgangi eru til að mynda flóttaleiðir og aðgengi mikilvægra innviða eins og vatns- og rafmagnsveitu. Áætlunin var unnin samkvæmt skipulagi Almannavarnar og haft var til hliðsjónar hólfaskipting bæjarins, staðsetningu mannvirkja, staðsetning flóttaleiða, staðsetning sprungna og niðurstöður fyrri rannsóknarniðurstöður og vegaviðgerða.

Skipulagning hefur verið stór partur af verkefninu og búið er að útbúa aðgerðaráætlun sem útskýrir kerfisbundið verklag um hvernig staðið er að rannsóknum, túlkun, vöktun og viðgerðum þegar/ef stórir náttúruatburðir verða á svæðinu. Áætlunin tekur þá mið af fyrri rannsóknum sem flýtir fyrir áhættumati á nýjum hættum sem gætu komið upp.

Framkvæmd jarðkönnunar
Framkvæmd jarðkönnunar er flokkuð í þrjá fasa.

Fasi 1 – Að tryggja öruggt aðgengi viðbragðsaðila sem eru að sinna verðmætabjörgun (götur og vegir)

  • Framkvæmd er sjónskoðun á öllum götum og vegum ásamt skoðun með jarðsjám sem gengið er með, auðkenna sprungur og færslur í efsta hluta jarðlaga. Ef vísbendingar um holrými finnast er svæðið skannað með jarðsjá sem sér dýpra niður í jörðina. Ef sú skoðun bendir einnig til þess að miklar líkur eru á holrými á svæðinu er notast við gröfu eða borað niður í holrými til að staðfesta hvort svo er. Einstaka hættuminni svæði eru sett í vöktun.

Fasi 2 – Opnun Grindavíkur með áherslu á að hefja rekstur fyrirtækja (vinnusvæði fyrirtækja)

  • Vinnusvæði fyrirtækja eru sjónskoðuð. Á svæðum þar sem túlkun á gögnum úr fasa 1 gefur til kynna holrými, er svæðið skannað nánar með jarðsjám. Þar sem vísbendingar hafa fundist um holrými í efstu lögum er grafið til að staðfest þá túlkun.

Fasi 3 – Opnun Grindavíkur með áherslu á framtíðar búsetu á svæðinu (öll önnur svæði)

  • Unnið er að áætlun fyrir fasa 3 en gert er ráð fyrir að niðurstöður úr fyrri tveim fösunum gefi innlegg í þá vinnu. Sérstakt verklag verður útbúið fyrir rannsóknir á opnum svæðum þar með talið lóðum bæjarins og garða við fasteignir.

Framvinda jarðkönnunar
Í aðgerðaráætluninni er Grindavíkurbæ skipt niður í hólf og í hverju hólfi eru skilgreind undirhólf, vegir, götur, vinnusvæði eða opin svæði sem öll eru til skoðunar.

Framvinda jarðkönnunar er metinn samkv. eftirfarandi flokkum:

  • Ekki hafið (rautt): Jarðkönnun ekki hafin.
  • Í vinnslu (gult):  Jarðkönnun hafin og túlkun er í vinnslu.
  • Þörf á aðgerðum (appelsínugulur): Frekari rannsókna/aðgerða er þörf til að ljúka jarðkönnun.
  • Lokið (grænn):  Jarðkönnun lokið og ekki er talin þörf á frekari rannsóknum.

Mynd 1 sýnir framvindu jarðkönnunar á götum og vegum sem tilheyra fasa 1. Á myndinni má einnig sjá merktar sprungur, afgirt svæði og viðgerðir.

Áréttað er að í fasa 1 er jarðkönnun eingöngu gerð á vegum og götum Grindavíkur. Af því leiðir að ekki er búið að jarðkanna íbúðasvæði eða önnur svæði í Grindavík, t.a.m. göngustíga, bílastæði, lóðir (bæði einkalóðir og sameiginlegar), opin svæði við og á milli fasteigna og önnur opin og/eða sameiginleg svæði innan Grindavíkur eða á víðavangi.

Mynd 2 sýnir framvindu jarðkönnunar á vinnusvæðum fyrirtækja í Grindavík sem tilheyra fasa 2.

Mynd 3 sýnir framvindu jarðkönnunar á opnum svæðum bæjarins sem tilheyra fasa 3. Þessi svæði hafa ekki verið í forgangi og því er skipulagning og vinna jarðkönnunar á þessum svæðum ekki hafin nema að takmörkuðu leiti.

Mynd 4 sýnir framvindu jarðkönnunar í heild þar sem fasa 1, 2 og 3 er slegið saman.

Vinna er hafinn við skoðun á stærstu sprungum bæjarins sem hafa hreyfst hvað mest í jarðhræringunum. Mynd 5 sýnir hvar þessar sprungur eru staðsettar og hvað er búið að skoða með jarðsjá á dróna. Jarðkönnun á þessum sprungum fellur undir alla þrjá fasa jarðkönnunar. Sprungurnar eru á mörgum stöðum óaðgengilegar og hættulegar og því hafa þau svæði ekki verið í forgangi.


Samantekt
Mikið hefur verið unnið á þessum fjórum vikum sem liðnar eru síðan verkefnið fór formlega af stað samkvæmt ofangreindu skipulagi. Það tók tíma að skipuleggja verkefnið, skipta bænum niður í hólf af viðráðanlegri stærð fyrir túlkun, virkja og skilgreina hlutverk samstarfsaðila og ákveða hvaða rannsóknir/aðgerðir yrði að framkvæma.

Mikilvægt var að útbúa aðgerðaráætlun til að stuðla að kerfisbundinni rannsókn á svæðinu, sem mun nýtast til framtíðar. Ágætlega hefur gengið að manna verkefnið, en um 30 aðilar hafa þegar komið að því. Að finna nauðsynlegan búnað og tæki hefur gengið vel og hafði Vegagerðin þegar hafið rannsóknir á sínum vegum sem flýtti vel fyrir gerð áætlana og mótun að aðferðarfræði. Til að auka afköstin var keypt önnur göngu-jarðsjá fyrir verkefnið. Túlkun jarðsjárgagna hefur tekið tíma þar sem það krefst sérfræðiþekkingar og hefur það á vissan hátt virkað takmarkandi á framvindu. Slæm veður, eldgos og lokanir í bænum hafa jafnframt seinkað framkvæmd. Framvinda verkefnisins telst þó yfir væntingum m.v. það stutta tíma sem er liðinn frá því að rannsóknir hófust. Ef auka ætti afköstin þyrfti meiri mannskap og búnað í verkefnið sem gæti þá farið yfir fleiri svæði samtímis. Í skoðun er einnig að beita öðrum aðferðum við rannsóknir.

Framhald og áskoranir
Ljóst er að jarðkönnun á allri Grindavík mun taka talsverðan tíma. Mikilvægt er að girða af svæði þar sem grunur leikur á um sprungur eða þar sem frekari jarðkönnun þarf að fara fram. Jafnframt er mikilvægt að sem skýrustum upplýsingum sé komið til fólks um hvaða svæði ber að varast í Grindavík.

Lokið er við túlkun gagna í fasa 1 vestan Víkurbrautar og þar eru nokkur svæði sem ráðlagt er að skoða nánar (appelsínugul svæði). Þetta eru ekki mörg svæði og það gæti tekið um eina viku að klára þá rannsókn sem felast í dýpri jarðsjárskoðun og gryfjum.

Sjónskoðanir hafa verið framkvæmdar á hafnarsvæðinu í fasa 2 (hólf I5 og I6) og þar hafa fundist sprungur á yfirborði sem ráðlagt er að skoða með dýpri jarðsjárskoðun og gryfjum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir um lok febrúar.

Iðnaðarsvæðið (hólf S4) er illa farið. Tvær stórar sprungur liggja gegnum svæðið og eyðilegging mikil. Jarðsjártúlkun gatna er í vinnslu og fljótlega verður farið í sjónskoðun. Ráðlagt er að klára úrvinnslu og meta aðgerðir á þessu svæði áður en það er opnað fyrir almenning. Sú vinna tekur um 2-3 vikur.

Enn ríkir mikil óvissa um opin svæði í Grindavík. Má þá sérstaklega nefna stærri sprungur og Stamhólagjánna og svæðin sunnan og norðan við þekktar sprungur. Rétt er að girða þessi svæði af þangað til jarðkönnun er lokið og gæta þarf að öðrum mótvægisaðgerðum gagnvart þeim hættum sem þar kunna að vera til staðar. Fundist hafa vísbendingar um stór holrými á Hópsbraut, Vesturhóp og Suðurhóp sem tengjast Stamhólagjánni. Einnig tengist Ránargatan og Austurvegurinn gjánni og allar lóðir austan Víkurbrautar. Öll þessi svæði þarf að skoða sérstaklega með mikilli varkárni.

Varðandi önnur opin svæði þá er ráðlagt að farið verði í sjónskoðun á lóðum í bænum og byrja þá á vestasta hluta bæjarins þar sem lítið hefur fundist af stórum sprungum og vísbendingum um holrými. Ráðlagt er að bíða með þá sjónskoðun þangað til snjóa leysir í bænum.

Varðandi viðgerðir á mannvirkjum, vegum, götum, bílastæðum og öðrum svæðum þá á eftir að skilgreina hvað sé gert og hvernig viðgerðum sé háttað á hverjum stað. Í framhaldinu þarf að fylgjast með ákveðnum sprunguviðgerðum sem eru á mikilvægum stöðum í bænum, t.a.m. flóttaleiðum eða svæðum sem eru undir miklu umferðarálagi.