Aðstæður á gosstöðvunum í Holuhrauni erfiðar og hættulegar

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RUV, er á gosstöðvunum. Rúnar lýsir vel þeim erfiðu aðstæðum sem vísindamenn og fréttamenn þurfa að glíma við. Fréttina má finna á vef RUV, en hana má einnig lesa hér fyrir neða. Full ástæða er til að ítreka að svæðið er lokað almennri umferð en þær varúðarráðstafanir verða vel skiljanlegar við lestur fréttarinnar.

„Óþægilegt að vera hér á ferð“

„Það er hellidemba og var haglél áðan og það kemur mikil gufa upp af gosinu og þannig séð ekki góðar aðstæður til myndatöku,“ sagði Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RÚV, sem staddur var nærri gosstöðvunum í morgun ásamt Hjalta Stefánssyni myndatökumanni.

En mig langar að koma því á framfæri að það er mjög óþægilegt að vera hér á ferð,“ sagði hann og bætti því við að keyra þurfi langa leið eftir slóða í sandi, framhjá stórum pollum. „Maður á von á því að jeppinn sökkvi í sandinn hvenær sem er – og það er ekki gott að eiga von á því þegar það er eldgos spúandi eiturgufum og vindátt getur breyst. Þannig að ég geri ráð fyrir að við Hjalti Stefánsson stoppum ekki lengi hér.“  

Gosið er enn í fullum gangi og jarðvísindamenn eru við hraunjaðarinn að störfum. Rúnar Snær segir ljósmyndara hafa sloppið með skrekkinn í gær, þegar flæða tók yfir hluta svæðisins vegna úrkomu og bráðnunar frá jöklinum. Minnstu hafi munað að þeir hafi orðið innlyksa á hættusvæði.

Jarðvísindamenn sem flugu yfir Vatnajökul og gosstöðvarnar á TF-SIF í gær sáu engar marktækar breytingar á sigdalnum sem þar hefur myndast, segir Eyjólfur Magnússon, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans. Hvorki var að sjá breytingar á Dyngjujökli né Bárðarbugu. Eyjólfur segir að talsverð virkni hafi verið í gosinu, það virðist engan veginn vera í rénun, heldur að krafturinn í því hafi aukist.

Gygur_a_midsprungu_Holuhraun_Armann_Hoskuldsson_04092014

Öflugasti gýgurinn á gossprungunni í Holuhrauni. Gosstrókarnir geta orðið allt að 113 metra háir. Mynd Ármann Höskuldsson.