Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
- Ekkert dregur úr gosinu í Holuhrauni. Kvikusteymi er milli 100 og 200 m3/s, hraunið gengur fram um 1 km á dag og var orðið um 16 km2 að stærð síðdegis í gær.
o Gosvirkni er á sömu stöðum og áður en gosvirkni á syðri sprungunni sem opnaðist á föstudag er lítil miðað við nyrðri sprunguna sem hefur verið virk frá upphafi.
o Hrauntungan nær nú 11 km til norðurs og er komin út í vestari meginkvísl Jökulsár á Fjöllum. Ekki hefur orðið vart við sprengivirkni þar sem áin og hraunið mætast en gufa stígur upp af hrauninu.
o Hvítt gosský nær í 3-4 km hæð og leggur til norður og norðausturs.
- Skjálftavirkni á svæðinu er svipuð og í gær. Um 140 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Í Bárðarbungu varð skjálfti að stærð 4,6 klukkan 03:30 og annar 5,4 að stærð laust upp úr klukkan sjö. Það er með stærstu skjálftum sem orðið hafa í Bárðarbngu frá upphafi umbrotanna 16 ágúst.
- Kvikustreymi inn í ganginn virðist nú vera svipað og útstreymi í gosinu í Holuhrauni. Óverulegar jarðskorpuhreyfingar mælast nú með GPS utan jökuls.
- Fjórir möguleikar eru áfram taldir líklegastir um framvindu:
o Að innflæði kviku stöðvist, skjálftahrinan fjari út og kvika brjótist ekki til yfirborðs á fleiri stöðum.
o Gangurinn nái til yfirborðs á fleiri stöðum utan jökuls. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
o Gangurinn nái til yfirborðs undir jökli aftur og leiði jafnvel til umtalsverðs eldgoss. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
o Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.