Búist við mengun frá gosinu um allt vestanvert landið í dag

Eftirfarandi spá má lesa á vef Veðurstofu Íslands:

Á mánudag og þriðjudag var vindur mjög hægur á landinu og varð vart við við gasmengun frá eldgosinu í flestum landshlutum. Í hægviðrinu er mögulegt að gasið safnist saman, þá einkum nærri eldstöðinni og nái háum styrk.
Í dag (miðvikudag) er útlit fyrir hægt vaxandi austanátt. Það má gera ráð fyrir að eftir hádegi verði sú gasmengun sem er yfir landinu farin að berast til vesturs, ásamt því gasi sem gemur frá gosstöðvunum í dag. Austanvert landið ætti þá að vera að mestu laust við mengun þegar kemur fram á daginn. Víða annars staðar má búast við mengun og gætu loftgæði orðið slæm.
Á morgun (fimmtudag) er búist við ákveðnari austlægri átt og ætti að nást að blása því gasi burt sem setið hefur yfir landinu. Það gas sem gemur frá eldgosinu á fimmtudaginn berst til vesturs og norðvesturs og líklega mun verða vart við það í Skagafirði, við Húnaflóða, á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og suður á Faxaflóa.
Spá gerð: 15.10.2014 06:17. Gildir til: 16.10.2014 23:00.

Á síðu almannavarnadeildar má kynna sér ráðleggingar Umhverfisstofnunar og Landlæknis um viðbrögð við brennisteinsmengun. Hlekkur á síðuna er hér.

eldgos_mengun_dagur1_20141015