„Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur síðustu vikurnar.“ Þessi lýsing á umbrotunum í Holuhrauni er farin að hljóma ansi kunnuglega í eyrum landsmanna, enda hefur eldgosið nú staði yfir í 79 daga og síðustu vikurnar hefur hegðun gossins líðið breyst. Hraun streymir enn uppúr samfelldri gígaröð eða gosrás, sem er um 400 metra löng. Þaðan rennur hraunáin til aust- suðausturs og stækkar hraunbreiðuna jafnt og þétt og er hún nú rúmir 72 ferkílómetrar að flatarmáli, samkvæmt mælingum sem gefnar voru út á föstudainn var, 14. nóvember.
Við Íslendingar verðum ekki mikið var við eldgosið, sem slíkt, í okkar daglega lífi enda er Holuhraun og Flæðurnar norðan Dyngjujökuls einn fáfarnasti staður landsins. Annað gildir um gasið sem frá gosinu streymir. Talið er að um 450 kg af brennisteinsdíoxíði komi upp úr gígunum á hverri sekúndu, en samkvæmt Dr. Jónasi Elíassyni jarðskjálftaverkfræðingi jafngildir það um tvö til þrjú þúsund vörubílshlössum af brennisteini á dag. Brennisteinsmengunin er án efa helsti skaðvaldur eldsumbrotanna og má ljóst vera að sá vandi fer vaxandi eftir því sem eldgosið stendur lengur yfir.
Brennisteinsmengunin verður til umfjöllunar á opnum fundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnunar, Sóttvarnalæknis og Vinnueftirlits ríkisins sem haldinn verður í húsnæði Veðurstofu Íslands kl. 14:30 í dag. Fundurinn er einkum ætlaður heilbrigðsfulltrúum sveitarfélaganna en hann er þó öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að fylgjast með fundinum á netinu. Slóðin er: http://www.ustream.tv/channel/ve%C3%B0urstofan Hægt er að senda inn spurningar á fundinn í gegnum netfangið so2fundur@gmail.com