Hraunbreiðan í Holuhrauni er nú 75 ferkílómetrar að stærð

Eldgosið í Holuhrauni hefur nú staðið í 92 daga, ef talið er frá 31. ágúst er núverandi gos hófst. Reyndar hafði gos hafist, á nákvæmlega sama stað, þann 28. ágúst en það gos dó út á nokkrum klukkutímum. Eldgosið í Holuhrauni er því að verða eitt allra stærsta eldgos síðari tíma og þarf að leita allt aftur á 18. öld til að finna sambærilegt gos. Er þá einkum horft til rúmmáls gosefna, flatarmáls hraunbreiðunnar og fjölda daga sem gosið stendur. Enn hafa þó ekki verið gefnar út áreiðanlegar tölur um rúmmál gosefnanna, þar sem mjög erfitt er að mæla þykkt hraunbreiðunnar. Þó hefur komið fram að líklegt sé að rúmmálið sé um einn rúmkílómetri. Unnið er að nákvæmari mælingum á rúmmáli hraunsins.

Flatarmálið er hins vegar auðvelt að mæla enda sést hraunbreiðan vel á gervitunglamyndum. Á meðfylgjandi mynd, sem unnin er af Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, má sjá að í gær, þann 30. nóvember, var hraunbreiðan 75,3 ferkílómetrar að stærð. Einnig má sjá að hraunbreiðan heldur áfram að stækka til suðurs í átt að Dyngjujökli.

Yfirlitskort_20141130

Hraunbreiðan í Holuhrauni 30.11.2014. Mynd Jarðvísindastofnun HÍ.