Hvað er Bárðarbunga stór?

Margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað askja Bárðarbungu er stór. Eldstöðin hefur verið í fréttum daglega frá því umbrotin hófust þann 16. ágúst síðastliðinn og sérstaklega eftir að stórir jarðskjálftar, um og yfir M5,0 að stærð, fóru að mælast í öskjunni sjálfri og yfirborð hennar tók að síga. Sigið er nú yfir 40 metrar og jarðskjálftarnir yfir M5,0 að nálgast fimmta tuginn.

En hvað er hún stór? Bárðarbunga er 2009 metra há, sem gerir hana að næst hæsta fjalli landsins á eftir Hvannadalshnjúk. Askjan sjálf er um 10 kílómetrar í þvermál, milli 70-80 ferkílómetrar að flatarmáli og um 700 metra djúp. Önnur leið til þess að átta sig á þessum stærðum er að setja Bárðarbungu í samhengi við eitthvað sem við þekkjum. Á kortinu hér fyrir neðan, sem unnið er af Jarðvísindastofnun HÍ, má sjá Bárðarbungu, hraunið í Holuhrauni, Grímsvötn og Kverkfjöll í réttum hlutföllum við suðvesturhorn landsins. Eins og sjá má þekur Bárðarbunga stóran hluta Reykjavíkur og Áltaness, Holuhraun dreifir úr sér í botni Hvalfjarðar, Kverkfjöll eru austur á Þingvöllum og Grímsvötn á milli Kleifarvatns og Hlíðarvatns.

Á kortinu þar fyrir neðan er mynd af hraunbreiðunni í Holuhrauni yfir París. Loks er mynd sem sýnir sig öskju Bárðarbungu í september og október.

Bbunga_Rvk_20141029

Bárðarbunga, Holuhraun, Kverkfjöll og Grímsvötn á suðvesturhorni landsins. Kort Jarðvísindastofnun HÍ, 29.10.2014.

Holuhraun_Paris_20141019

Holuhraun yfir París. Kort Jarðvísindastofnun HÍ 19.10.2014.

bb-thversnid09-10-avef_20141024

Hæðabreytingar í öskju Bárðarbungu frá september til október 2014. Kort Jarðvísindastofnun HÍ, 24.10.2014.