Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra í samvinnu við Vini Vatnajökuls hafa sett upp nýja vefmyndavél í Holuhrauni sem sýnir eldgosið frá nýju sjónarhorni. Vefmyndavélin er staðsett vestan við gíginn og snýr í austur. Á henni eru tvær linsur, önnur með víðu sjónarhorni en hin með aðdrætti. Þannig er hægt að fylgjast með þessu ákveðna sjónarhorni bæði vítt og þröngt. Vefmyndavélin tekur ljósmynd á tíu mínútna fresti sem gefur skarpari og betri myndir heldur en ef vélin væri stilt á stöðuga útsendingu. Með þessu móti er einnig hægt að spara mikla orku, sem er af mjög skornum skammti á þessum slóðum, auk þess sem skerpan nýtist vel við takmörkuð birtuskilyrði.
Hægt er að skoða myndirnar á vef M&T http://webcams.mogt.is/
Á síðunni er einnig hægt að fylgjast með annari vefmyndavél sem almannavarnardeild setti upp á Vaðöldu í september síðastliðinn. Um er að ræða samskonar vél með tveimur linsum. Á þeirri vél eru linsurnar hins vegar stiltar þannig að önnur vísar að gígnum en hin niður á Flæðurnar. Sú vél gefur því tvö mismunandi sjónarhorn. Myndirnar frá þessari vél birtast einning á vef M&T og eru merktar Vaðöldu.
Vinir Vatnajökuls eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs. Samtökin voru stofnuð þann 21. júní 2009. Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja á þjóðgarðssvæðinu, rannsóknir, kynningar- og fræðslu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu þjóðgarðsins.
Stefna samtakanna er að verða fjölmenn, fjárhagslega sjálfstæð samtök sem koma til með að leggja mikið af mörkum til margskonar verkefna á sviði rannsókna, kynningarmála og fræðslustarfs.
Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra þakkar Vinum Vatnajökuls fyrir styrkinn og gott samstarf.