Lögreglustjórinn á Húsavík í samráði við ríkislögreglustjóra hefur ákveðið að aflétta tímabundnum takmörkunum á aðgangi vísindamanna og fjölmiðla, sem hafa sérstök leyfi almannavarna til að fara inn á lokaða svæðið norðan Vatnajökuls.
Almannavarnir ítreka þó að lokanir á svæðinu norðan Vatnajökuls við gosstöðvarnar eru enn í gildi gagnvart annarri umferð og er strangt tekið á því sjáist til ferða óviðkomandi innan bannsvæðisins.
Í tilkynningu Vinnueftirlitsins kemur fram að starfsumhverfi í nágrenni eldsumbrota er hættulegt, m.a. með tilliti til eiturefna, fljúgandi jarðefna, hita, mögulegra flóða auk fleiri þátta. Er það á ábyrgð fyrirtækja sem eru með starfsmenn á slíkum vettvangi að tryggja hlífðarbúnað þeirra, mælitæki og þekkingu í samræmi við ráðleggingar Vinnueftirlitsins, en nánar má lesa um þær á heimasíðu þess á slóðinni www.vinnueftirlit.is/um-vinnueftirlitid/frettir/nr/1170
Almannavarnir taka fram að staðsetning eldstöðvanna er utan þess svæðis er flóðamælingatæki ná til. Því er sérstaklega varað við umferð á svæðinu eftir að skyggja tekur.