Eins og flestir landsmenn tóku eftir þá var hinn þekkti sjónvarpsþáttur Good Morning America sendur út beint frá Holuhrauni þann þriðja febrúar síðastliðinn. Drónar voru þema þáttarins og var fjallað um þessi fjarstýrðu flygildi út frá ólíkum notkunarmöguleikum þeirra. Eldgosið í Holuhrauni var notað sem dæmi um myndatöku við mjög erfiðar og hættulegar aðstæður þar sem ekki er hægt að beita hefðbundnum myndavélum til að afla upplýsinga um þróun mála. Vissulega er hægt að taka myndir af eldgosum úr fjarlægð, úr þylu eða jafn vel úr gervihnetti á sporbaug um jörðu. En með því að nota fjarstýrðan dróna og festa myndavél á hann er hægt að komast mun nærri gígnum sjálfum án þess að leggja mannslíf í stóra hættu.
Í föruneyti Good Morning America voru starfsmenn DJI sem framleiða dróna og stýrðu þeir vélum sínum að gígnum í Holuhrauni og sendu þaðan myndir í rauntíma yfir alla heimsbyggðina. Útsendinguna frá Íslandi má sjá í heild sinni hér. Í kvöldþætti ABC var einnig fjallað um ferðina í Holuhraun, hlekkur á þá umfjöllun er hér.
Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur og starfsmaður almannavarna, var viðmælandi hinnar geðþekku Ginger Zee, sem er ein af umsjónarmönnum þáttarins. Ragnar Th Sigurðsson, ljósmyndari, var einnig með í ferðinni og sendi hann okkur meðfylgjandi myndir og veitti góðfúslegt leyfi sitt fyrir birtingu þeirra.
Eins og sjá má á myndunum var töluvert umstang vegna útsendingarinnar og mikið af tækjum og tólum sem þurfti að flytja á staðinn. Ekki síst þurfti að tryggja öryggi allra þeirra sem að útsendingunni komu. Hópurinn hafði aflað allra tilskilinna leyfa og uppfyllt allar þær öryggiskröfur sem gerðar eru til fjölmiðla og vísindamanna sem helypt er inn á lokunarsvæðið umhverfis eldgosið.