Fundi vísindamannaráðs Almannavarna sitja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans ásamt fulltrúum frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra
Á fundi vísindamannaráðs í morgun kom eftirfarandi fram:
- Gos er enn í gangi í Holuhrauni og ekkert bendir til þess að það sé í rénun. Hraunið rennur aðallega til ANA og hefur lengst töluvert síðan í gær. Bráðabirgðamat frá um kl. 8 í morgun er að útbreiðsla hraunsins sé um 11 km2.
- Stærstu skjálftar síðan á miðnætti eru fjórir, 4-5 að stærð, allir í Bárðarbunguöskjunni. Alls um 180 skjálftar hafa mælst síðan á miðnætti, flestir á svæðinu við jaðar Dyngjujökuls. Sá stærsti var 4,8 að stærð.
- Órói sem sást á mælum í gær dó út í gærkvöldi og byrjaði aftur í morgun en er mun minni en í gær. Ekki hefur verið staðfest hvaðan þessi órói kemur en hugsanlegt er að kvika hafi komist í snertingu við vatn.
- Ekki eru merki um gos undir Dyngjujökli. Engar augljósar breytingar eru á leiðni eða vatnsflæði í ám. Í yfirlitsflugi TF-SIF var ekki að merkja aukið vatnsflæði á eða frá jöklinum. Breytingar sáust heldur ekki á sprungum. Ratsjármyndir sýna engar breytingar.
- GPS-mælingar síðustu 24 klukkustundir sýna að hægt hefur á hreyfingum. Færslur á stöðvum norðan Vatnajökuls benda þó til rúmmálsaukingar í ganginum. Ekki sjást verulegar breytingar á stöðvum í nágrenni Bárðarbungu.
- Engar tilkynningar um öskufall hafa borist. Mælanlegt öskufall er ekkert.
- Brennisteinstviildi mælist í kringum eldstöðina.
- Gufuský lagði undan vindi í gær en er kyrrstætt í dag þar sem lygnt er á svæðinu. Magn brennisteinstvíildis í gufunni á fjarlægari mælistöðvum nokkuð undir öryggismörkum og telst ekki hættulegt. Búast má við hærri gildum í dag nær eldstöðvunum þar sem lyngt er. Vindur mun snúast til norðurs og gufuna leggur þá til suðurs.
Hæð skýsins er um 6 km.
- Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:
- Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
- Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
- Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
- Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.