Fjöldi viðbragðsaðila og vísindamanna hafa verið við störf norðan Vatnajökuls frá því að atburðarrásin í Bárðarbungu hófst þann 16. ágúst síðastliðinn. Þegar svo margir aðilar starfa saman í sömu aðgerð er mikilvægt að geta samhæft störf allra með einföldum hætti og að hægt sér að miðla upplýsingum hratt og örugglega.
Um árabil hafa viðbragðsaðilar á Íslandi notað TETRA fjarskiptakerfið í þessum tilgangi en það kerfi býður upp á margar möguleika til samvinnu. Mikilvægur eiginleiki sem kerfið býður upp á er ferilvöktun en með því er með lítilli fyrirhöfn hægt að sjá staðsetningu viðkomandi talstöðvar. Þetta er öryggisatriði sem einnig hjálpar stjórnstöð viðkomandi aðgerðar að hafa yfirsýn yfir staðsetningu allra bjarga.
Almannavarnir þurfa að hafa góða yfirsýn þegar unnið er við samhæfingu aðgerða eins og í Holuhrauni. Segja má að bylting hafi orðið í samskiptum þeirra sem vinna í neyðaraðgerðum með tilkomu TETRA fjarskiptakerfisins. Um er að ræða öflugt miðstýrt hópfjarskiptakerfi sem tryggir hröð og örugg samskipti. Vísindamenn sem fara inn á svæðið við Holuhraun á vegum almannavarna eru allir með TETRA stöð frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eða frá sínum stofnunum. Þeir tilkynna aðgerðastjórn á Húsavík um ferðir sínar á lokaða svæðinu. Jafnframt nota þeir TETRA stöðvarnar til að tilkynna beint til Samhæfingarstöðvar, Veðurstofunnar og aðgerðastjórnar um atburði og aðstæður á gossvæðinu. Þannig geta allir sem vinna saman í aðgerðinni fylgst með samskiptunum og fengið stöðugar upplýsingar frá vettvangi.
Á Hálendinu þar sem komið hefur verið upp endurvarpastöðvum fyrir TETRA- kerfið hefur einnig verið komið upp sendum fyrir GSM farsímakerfið. GSM kefrið er notað til að flytja merki frá margskonar mælitækjum sem notuð eru til að vakta aðstæður á gosstöðvunum og víðar í grennd við þær. Sem dæmi má nefna GPS tækið sem staðsett er í öskju Bárðarbungu og sendir stöðugar upplýsingar um sig öskjunnar beint á tölvuskjái upplýsingaþyrstra sérfræðinga og sófaspekúlanta um allan heim. Án TETRA kerfisins væri þessi nákvæma rauntíma vöktun óhugsandi.
Slóðin á GPS stöðina í öskju Bárðarbungu er hér:
Hér er heimasíða Neyðarlínunnar ohf sem rekur TETRA- kerfið.