Varpa ljósi á myndun kvikugangs við Bárðarbungu í grein í Nature

Grein eftir hóp íslenskra og erlendra vísindamanna, sem skýrir á ítarlegan hátt myndun kvikugangs frá Bárðarbungu og út í Holuhraun í aðdraganda gossins þar, birtist í dag í vefútgáfu hins virta vísindatímarits Nature.

Eldsumbrotin í Holuhrauni hafa nú staðið yfir á fjórða mánuð og fátt bendir til þess að lát verði á þeim á næstunni. Eldgosið hefur vakið athygli um allan heim og hafa bæði innlendir og erlendir vísindamenn fylgst afar náið með framvindunni allt frá því að jarðhræringar hófust í Bárðarbungu. Með samtúlkun á mælingum á jarðskorpuhreyfingum, bæði GPS-landmælingum og svokölluðum bylgjuvíxlmælingum úr gervitunglum, og jarðskjálftamælingum hafa vísindamenn nú unnið líkan af myndun kvikugangsins mikla sem myndaðist í síðari hluta ágúst og liggur neðanjarðar frá Bárðarbungu og út í eldstöðina í Holuhrauni þar sem kvika kemur upp úr ganginum.

Í greininni í Nature er útskýrt í máli og myndum hvernig kvikugangurinn myndaðist að mestu yfir tveggja vikna tímabil í aðdraganda gossins. Gangurinn er yfir 45 kílómetra langur. Mesta opnun gangsins er frá því skammt neðan yfirborðs jarðar og niður á 6 kílómetra dýpi, að meðaltali um 1.5 metrar. Rúmmál gangsins óx jafnt og þétt þar til megineldgosið hófst og var þá um 0,5 rúmkílómetrar. Líkanið sem vísindamannahópurinn hefur útbúið skýrir jafnframt stefnu gangsins sem er mjög breytileg og óvenjuleg, en hún markast af samspili áhrifa landslags á svæðinu og spennu í jarðskorpu vegna flekahreyfinga. Rannsóknirnar sýna einnig hvernig kvikan frá Bárðarbungueldstöðinni mætti aftur og aftur fyrirstöðu á leið sinni neðanjarðar að Holuhrauni, lárétt framrás gangsins stöðvaðist tímabundið, og þrýstingur óx við enda gangsins. Um leið og nægur kvikuþrýstingur varð fyrir hendi brast fyrirstaðan og nýr hluti gangsins myndaðist. Næst Bárðarbungu réð landslag miklu um stefnu gangsins, fjær voru það spennur í jarðskorpunni vegna flekahreyfinga.

Alls koma 37 vísindamenn Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og átta erlendra háskóla og vísindastofnana víðs vegar í heiminum að rannsókninni, sem sagt er frá í Nature, en það er einn stærsti hópur sem tengst hefur vísindagrein um íslensk jarðvísindi í alþjóðlegu tímariti. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni FUTUREVOLC sem stutt er af Evrópusambandinu, en almannavarnardeild ríkislögreglustjóra tekur einnig þátt í því rannsóknarverkefni.

Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, sem hafði forystu um ritun greinarinnar, segir rannsóknirnar auka skilning á því hvernig kvikugangar geti náð mikilli lengd í jarðskorpunni með láréttu flæði kviku sem byggir upp þrýsting við enda slíkra ganga og losar þannig um fyrirstöður sem verða á ferðalagi kvikunnar.

Aðstandendur rannsóknarinnar vonast til þess að hægt verði að gera sambærilegar rannsóknir í framtíðinni í rauntíma þannig að auka megi enn frekar skilning á og möguleika á að segja til um myndun og þróun kvikuganga víðs vegar á jörðinni.

Holuhraun_Visir_Egill_20141027

Holuhraun 27.10.2014. Mynd Egill Aðalsteinsson, Vísir.is.