Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að lækka viðbúnaðarstig fyrir flug frá rauðu og niður á appelsínugult stig. Áður útgefið NOTAM vegna skilgreinds hættusvæðis fyrir flug sem gildir til 10:30 verður því ekki framlengt. Þannig hefur eldgosið ekki lengur áhrif á flug.
Áfram er þó í gildi haftasvæði sem Samgöngustofa lét gefa út, en það hefur nú verið minkað í 3. sjómílna radíus frá eldstöðinni og nær svæðið upp í 5000 fet yfir jörð sbr. meðfylgjandi mynd. Svæðið er lokað fyrir öllu flugi nema flugi Landhelgisgæslu Íslands. Gildistími svæðisins er til kl. 16:00 1. september 2014.