50 ár frá upphafi eldgossins á Heimaey

Síðastliðið haust hélt Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra upphafserindið á Björgun, ráðstefnu Landsbjargar, sem haldin var í Hörpu í október 2022.  Í erindinu kom Víðir inn á ýmsa sögulega atburði í ljósi 60 ára afmælis Almannavarna hvar eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 bar hæst. Hér að neðan er hluti af erindinu sem er vel við hæfi að birta þar sem 50 ár eru í dag frá eldgosinu í  Vestmannaeyjum.  Víðir var einn nærri 5000 Eyjamanna sem  fluttir voru af eyjunni þessa gosnótt.

Þann 23. janúar 1973 hófst eldgos á Heimaey en þá eldstöð töldu flestir kulnaða þrátt fyrir að árin 1963-1967 hafi staðið yfir eldgos í næsta nágrenni við eyjuna, eða í Surtsey. Þrátt fyrir að flestir hafi talið eldgos á Heimaey fjarstæðukennt hafði starfsfólk þá Almannavarna ríkisins þó haft á sér einhvern vara því árið 1964 voru sett saman drög að rýmingaráætlun fyrir Heimaey og m.a. haldin skrá yfir öll skip og báta í Eyjum og hvað koma mætti mörgum einstaklingum um borð í hvert fley.

Gosnóttina flúðu nærri 5000 einstaklingar heimili sín og voru fluttir upp á land með fiskibátum, flestir til Þorlákshafnar. Allar björgunarsveitir voru kallaðar út til að aðstoða við móttöku og flutning í Þorlákshöfn og má segja að Rauði krossinn hafi unnið þrekvirki um nóttina við að taka á móti flóttafólkinu í fjöldahjálparstöðvum,  sem voru einmitt hluti af hinu nýja neyðarskipulagi almannavarna. Skráningarkerfi var útbúið og á ótrúlega stuttum tíma tókst að sameina fjölskyldur og koma öllum í lengri tíma búsetuúrræði. Enn og aftur sýndi íslenskt samfélag samtakamátt sinn þegar á reyndi.

Það sem er einnig áhugavert við þennan fyrsta sólarhring eldgossins er sú umræða sem hefur alla tíð verið áberandi, þ.e. að þetta hafi allt verið eintómar tilviljanir og heppni. Þegar gögnin og sagan eru rýnd kemur betur kemur annað í ljós, þ.e. að unnið var eftir hinu nýja neyðarskipulagi Almannavarna. Ekki verður því hins vegar neitað að það var geysilega heppilegt að floti Eyjamanna var allur í landi nóttina þegar gosið hófst.

Stjórnstöð Almannavarna var virkjuð snemma um nóttina og var starfrækt linnulaust  fyrstu vikurnar. Eftir að Viðlagasjóður tók til starfa fóru mörg verkefni Almannavarna til sjóðsins.

Meðal þess sem stjórnvöld gerðu í upphafi var að setja lög um neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey nr. 4/1973 þar sem stofnaður var sérstakur Viðlagasjóður sem átti að halda utan um björgunar- og uppbyggingastarf vegna náttúruhamfaranna. Verkefni sjóðsins var samkvæmt lögunum í fjórum liðum.

  • Að tryggja hag Vestmannaeyinga og stuðla að vernd og endurreisn byggðar þeirra.
  • Að greiða kostnað vegna björgunarstarfs, flutninga og röskunar á högum vegna eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum.
  • Að bæta tekjumissi og eignatjón af völdum eldgossins á Heimaey.
  • Að draga úr áhrifum náttúruhamfara í Vestmannaeyjum á afkomu og atvinnulíf Vestmannaeyinga og þjóðarheildarinnar og gera hvers konar fjárhagsráðstafanir í þessu skyni.

Meðal verkefna sjóðsins var því að minnka skaðann af gosinu eins og unnt væri en eitt þekktasta verkefnið sem ráðist var í eru líklega aðgerðir við björgun hafnarinnar. Sjóðurinn stóð að því að meta eignartjón og greiða bætur, einnig að kaupa og setja upp einingahúsnæði fyrir Vestmannaeyinga bæði í Heimaey og annarsstaðar á landinu. Í upphafi setti ríkissjóður um 320 milljónir í sjóðinn.

Listi yfir þá sem gáfu til sjóðsins er í skjalasafni Viðlagasjóðs sem vistað er hjá Þjóðskjalasafninu og er merki um samhug þjóða og einstaklinga gagnvart Vestmanneyingum sem stóðu í ströngu. Fréttir af gosinu fóru um allan heim og margar þjóðir gáfu fé í sjóðinn. Þeir fyrstu sem gáfu til sjóðsins voru frændur okkar Færeyingar gáfu 10 milljónir íslenskra króna.

Listinn inniheldur einstaklinga sem óráðið er að vita hvaðan koma nema út frá nafni og gjaldmiðli en eðli málsins samkvæmt voru upphæðir framlaga misháar. Þannig er „gamall sjómaður“ skrifaður fyrir tæpri milljón, „tvær aldraðar systur í Kaupmannahöfn“  gáfu hálfa milljón íslenskra króna og maður að nafni Marwin H. Gaskell gaf einn bandarískan dollar eða rúmar 2000 kr.Þá eru peningar frá „söfnun á vegum Equipe Vulcain“ , kirkjugestum í Skjåk, „Íslendskvöld Falconercentret á Friðriksbergi“ og ágóði hljómleika í Stokkhólmi.

Á listanum eru þjóðir heims skráðar fyrir þónokkrum upphæðum og eru ríkisstjórnir Danmerkur, Sviss, Ítalíu, Noregs og landsþing Álandseyja m.a. á blaði. Athyglisvert er að sjá ríkisstjórnir þjóða eins og Suður-Kóreu, Ísraels, Bresku Kólumbíu og Norður-Kóreu gefa upphæðir, sem sýnir hvað heimurinn er í raun lítill og hvað fréttir af þessum atburðum fóru víða.

Frá 6. febrúar til 28. ágúst 1973 safnaðist þannig rúmur milljarður íslenskra króna eða kr. 1.029.401.546,70  í frjálsum framlögum en gosinu lauk í byrjun júlí. Óhætt er að segja að þarna hafi einstakur samtakamáttur heimsins sýnt sig og að um allan heim hafi þjóðir og einstaklingar viljað sýna Vestmannaeyingum samkennd.