Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur ákveðið að færa almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig vegna COVID -19. Neyðarstigi var lýst yfir 11. janúar 2022 þegar óljóst var hver áhrif omikrón afbrigðisins yrði á samfélagið, fjölgun innlagna á heilbrigðisstofnanir og fjölgun starfsmanna í einangrun hjá aðilum sem bera ábyrgð á mikilvægum samfélagslegum verkefnum, svo sem í heilbrigðiskerfinu.
Þessi breyting hefur ekki áhrif á þær sóttvarnaráðstafanir, skv. reglugerðum heilbrigðisráðherra, sem í gildi eru. Aflétting neyðarstigs, sem tekur gildi kl.16 í dag, hefur því ekki í för með sér breytingar gagnvart almenningi.
Þrátt fyrir þessa breytingu er allir ábyrgðaraðilar mikilvægra samfélagslegra verkefna hvattir til að halda uppi þeim sóttvörnum sem tryggja áfram órofin rekstur.
Samhliða afléttingaráætlun stjórnvalda verður almannavarnastig í stöðugri endurskoðun.
Frekari upplýsingar um þróun faraldursins og bólusetningar má finna á www.covid.is – Þar má einnig finna upplýsingar um þær sóttvarnaaðgerðir sem eru í gildi sem og leiðbeiningar.