Aflýsing óvissustigs almannavarna vegna virkni í Öræfajökli

Í ljósi eftirfarandi upplýsinga hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi ákveðið að aflýsa óvissustigi almannavarna vegna aukinnar virkni í Öræfajökli.

Óvissustigi vegna aukinnar virkni í Öræfajökli var lýst yfir þann 17. nóvember 2017 vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í fjallinu, flóða í Kvíá og brennsiteinslyktar frá henni og myndunar sigketils í ísnum í öskju á toppi Öræfajökuls.

Jarðskjálftavirkni

Vikulegur fjöldi jarðskjálfta í Öræfajökli hefur verið undir 20 frá því í febrúar á þessu ári. Flestar vikur á þessu tímabili hafa jarðskjálftar verið færri en 10 sem er mun minni virkni en misserin þar á undan.  Jarðskjálftar stærri en 2.0 hafa ekki orðið í Öræfajökli frá því í febrúar og frá svipuðum tíma hefur losuð orka í skjálftum lítið vaxið.

Landris

Hægt hefur á landrisi eða þenslu af völdum kvikuhreyfinga og merki um landris sem sést á GPS mælistöðvum í grennd við Öræfajökul virðist fyrst og fremst stafa af fargbreytingum vegna rýrnunar jökla.

Rennsli í ám og leiðni

Á undanförnum mánuðum hefur rennsli í ám umhverfis Öræfajökul verið í góðu samræmi við úrkomu og lofthita, ekki hefur orðið vart við jarðhitavatn í Kotá, Kvíá og Virkisá. Rafleiðni í þessum ám hefur einnig verið innan eðlilegra marka.

Vöktunarkerfi

Þegar órói hófst í Öræfajökli haustið 2017 var net vöktunarmæla á svæðinu þétt til muna. Jarðskjálftamælum og GPS tækjum sem nema jarðskorpuhreyfingar var fjölgað og rennslis- og leiðnimælum í ám var komið upp. Allir þessir mælar streyma gögnum til Veðurstofu Íslands þar sem náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast með gögnunum allan sólarhringinn. Bætt vöktunarkerfi eykur líkurnar á því að hægt sé að vara við yfirvofandi eldgosi í tíma og rekstur slíks kerfis í byggð sem stendur svo nærri eldfjalli er lífsnauðsyn.