Áfram hættustig vegna gróðurelda

Áfram er hættustig vegna gróðurelda á Höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir nokkra úrkomu um helgina sem var kaflaskipt var hún því miður ekki allstaðar og er til dæmis ennþá mikill þurrkur í Heiðmörk.  Spáð er áframhaldandi þurrki næstu daga ásamt talsverðum vindi eða allt að 15 m/sek. aðfararnótt fimmtudags. Ennþá er næturfrost í Heiðmörk og gróður hefur ekki tekið almennilega við sér þar.

Ásamt Höfuðborgarsvæðinu þá er einnig áframhaldandi hættustig á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi Vestra og Austur Skaftafellssýslu. Ástæðan sú sama og áður, sú litla úrkoma sem hefur komið er ekki nægileg til að bleyta jarðveginn og næturfrost á svæðinu hefur þau áhrif að gróðurinn tekur síður við sér.

Suðurnes eru áfram á óvissustigi. Árnessýsla og Rangárvallasýsla fara einnig á óvissustig þar sem bætt hefur í rigningu á því svæði, einnig hafa síðustu nætur hafa verið frostlausar. Í Vestur Skaftafellssýslu er ástand óbreytt og ekkert viðbúnaðarstig, almannavarnir hvetja þó alla að fara varlega með eld þar sem og annars staðar þar sem þéttur gróður er til staðar.

Ekki er það alltaf svo á Íslandi að úrkoma sé gleðiefni, en það er óhætt að segja að það séu gleðifréttir að von er á úrkomu nk. föstudag á Suðvesturlandinu. Þá verður staðan endurmetin.

Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða. Að lýsa yfir hættustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Samhliða því að fara á hættustig vegna gróðurelda þá er bann við meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geysar.

Aldrei er góð vísa of oft kveðin:
Almenningur og sumarhúsaeigendur á því svæði sem er á hættu- og óvissustigi eru hvattir til að:

Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
Kanna flóttaleiðir við sumarhús
Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er

Fyrri frétt um hættu vegna gróðurelda.