Áfram óvissustig á Austurlandi vegna skriðuhættu og hættustig á Seyðisfirði

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi: 

  • Áfram óvissustig á Austulandi vegna skriðuhættu. 
  • Áfram hættustig á Seyðisfirði og rýmingar að hluta í gildi vegna skriðuhættu. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi funduðu með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn nú fyrir hádegi.  Auk þess sátu fundinn fulltrúar frá viðbragðsaðilum, sveitarfélagi og stofnunum. 

Enn er verið að kanna og meta stöðugleika ofan við rýmingarsvæði á Seyðisfirði auk þess sem unnið er að lagfæringu innviða. Á meðan sú vinna er í gangi þykir ekki óhætt að aflétta frekari rýmingu.  Hlíðin ofan rýmingasvæðisins verður endurmæld frá því í gær, sprungur kortlagðar og yfirlitsmyndir teknar.  Þessi gögn verða höfð til hliðsjónar þegar hætta á frekari skriðuföllum verður metin.  Veðurstofan ásamt lögreglunni á Austurlandi og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vinna reglulega að ráðleggingum hvar og hvernig er hægt að huga að þeim eignum sem eru innan rýmingarsvæðisins með lágmarks áhættu. 

RARIK vinnur að því að koma rafmagni á sem víðast og vegna bilunar í hitaveitu er verið að koma fyrir rafmagnsofnum í þau hús sem hafa ekki hitaveitu. 

Þeir íbúar á rýmingarsvæðum sem hug hafa á að líta eftir húsum sínum í dag vegna verðmætabjörgunar eða til að ná þar í nauðsynjar, eru beðnir um að gefa sig fram við vettvangsstjórn á Seyðisfirði og fá leiðbeiningar og fylgd inn á rýmingarsvæði. Þeir íbúar við neðangreindar götur og vantar aðstoð við að komast á Seyðisfjörð er bent á að gefa sig fram í fjöldahjálparstöðinni á Egilstöðum. Þær götur sem mögulegt er að ná í nauðsynjar eru Múlavegur, Botnahlíð, Brattahlíð, Túngata, Miðtún, Baugsvegur, Brekkuvegur, Austurvegur frá 22 til 40B, Hafnargata 2A, Brúarleira, Lónsleira. Hús við aðrar götur á rýmingarsvæði eru enn lokuð og ekki hægt að komast í þau að sinni. 

Minnt er á íbúafund í dag kl. fjögur. Hann verður sendur út rafrænt á fésbókarsíðu Múlaþings. Íbúar sem eiga heimangengt eru hvattir til að mæta.