Áhrif mengunar frá Holuhrauni á úrkomu á Vatnajökli og Austurlandi veturinn 2014-15

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir vinna við mælingar á snjókjörnum sem safnað var á Vatnajökli og á hálendinu norðaustan hans í mars síðastliðnum. Tilgangurinn var að mæla styrk og ákomu efna í úrkomu sem féll veturinn 2014 til 2015, frá september til loka mars, og meta hvort og þá hve mikið ákoman hefur orðið fyrir áhrifum af gosinu í Holuhrauni sem stóð frá 31. ágúst til 27. febrúar 2015. Í heildina var 31 snjókjarna safnað, þar af 29 kjarnar sem endurspegla meðalefnasamsetningu vetrarákomunnar og tveir kjarnar sem voru hlutaðir niður til að sjá þróun ákomunnar í tíma og rúmi.
Styrkur leystra anjóna (aðallega súlfats (SO4), klórs (Cl) og flúors (F)) var hærri og pH lægra (súrara) í vetrarákomunni 2014-2015 en í ómenguðum snjókjörnum sem safnað var á Vatnajökli árið 1988 og árlega á Langjökli frá 1997 til 2006.

Í hreinni úrkomu eru anjónirnar Cl og SO4 að mestu leyti sjávarættaðar. Hlutfall þeirra í sjó er stöðugt og frávik frá því bendir til þess að efnin eigi að hluta til annan uppruna. Hlutfallið SO4/Cl í snjókjörnunum frá 2015 var hærra en í sjó sem bendir til aukins SO4 miðað við Cl. Nærtækasta skýringin á brennisteinsaukningunni í vetrarákomunni á Vatnajökli 2014-2015 er oxun á brennisteinsdíoxíði (SO2) frá Holuhrauni. Klór getur einnig borist sem eldfjallagas (HCl) en styrkur þess í úrkomunni er að langmestu leyti tilkominn vegna sjávarsalta sem ýrast upp úr ölduföldum. Sýring vegna brennisteinssýru (H2SO4) var meiri en sýring vegna saltsýru (HCl). Hlutfall SO4/Cl var hæst og pH lægst (súrast) neðst í þeim kjörnum sem hlutaðir voru niður. Snjórinn í neðri hluta kjarnanna féll á fyrri hluta vetrar, þegar útstreymi gass og kviku var mest í eldstöðinni.

Þessar fyrstu niðurstöður sýna  að vetrarúrkoma á Austurlandi og Vatnajökli er menguð af völdum gossins í Bárðarbungu, en  bráðnun snævarins mun líklega ekki valda alvarlegri sýringu á yfirborðs- eða grunnvatni. Styrkur málma í snjósýnunum verður mældur á næstu vikum.

Iwona Galeczka, Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason
Jarðvísindastofnun Háskólans.