Áhrifa frá Skaftárhlaupi gætir áfram

Hlaupið í Skaftá er í rénun, en  áhrifa jökulhlaupsins mun gæta næstu daga og líklega út næstu viku. Hlaupvatnið er enn að breiða úr sér og mun hafa áhrif á vegakerfið á svæðinu fram í næstu viku enda hlaupið með stærri Skaftárhlaupum. Vegagerðin fylgist náið með ástandi samgöngumannvirkja á svæðinu en þekkt er að það vatn sem flæmist út um Eldhraunið er lengi að skila sér og því getur verið að það flæði yfir þjóðveg 1 á kafla vestan við Kirkjubæjarklaustur. Hlaupavatn getur því komið fram einhverjum dögum eftir að hlaup nær hámarki. Búast má við takmörkunum á umferð um svæðið og mun lögreglan á Suðurlandi verða með 24 tíma vakt á Kirkjubæjarklaustri eftir því sem þörf krefur og fylgjast með framvindunni og hefur brúnni yfir Eldvatn við Ása nú verið lokað vegna skemmda. Einnig er austasti hluti F208 lokaður vegna Skaftárshlaups.

Vísindamannaráð almannavarna kom saman í gær og þar fóru fulltrúar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurland yfir framgang jökulhlaupsins áhrif þess og hugsanlega framvindu. Vísindamenn hafa verið við upptök jökulhlaupsins við jaðar Skaftárjökuls við mælingar og ennfremur hefur verið flogið yfir áhrifasvæði hlaupsins til að afla frekari gagna um jökulhlaupið.

Frett_03102015

Veðurspáin fyrir svæðið umhverfis Skaftárdal sýnir mikla úrkomu um helgina sérstaklega frá og með sunnudagseftirmiðdegi og þá mun vatnsmagnið sem safnast hefur í Eldhraunið koma til með að aukast enn frekar.