Aukin rafleiðni í Markarfljóti

Mælir Veðurstofunnar í Markarfljóti við Einhyrningsflatir sýndi stöðuga aukningu rafleiðni í ánni frá u.þ.b. 30 til 85 µS/cm á tímabilinu 7. – 11. júlí. Á sama tíma hefur vatnshæð aukist um u.þ.b. 30 cm og neðar í ánni við gömlu Markarfljótsbrúna hækkaði rafleiðni úr 105 µS/cm í 155 µS/cm.

Aukin rafleiðni í Markarfljóti við Einhyrningsflatir er líklega vegna jarðhitavatns undan Entujökli. Smáhlaup úr Entujökli með mikilli lykt eru þekkt í Fremri Emstruá. Þó hlaupin séu ekki stór þá geta þau skemmt göngubrú sem er yfir ánni. Við viljum ítreka að ekki er búist við mikilli hættu af hlaupvatninu, heldur af gasmengun við upptök árinnar og í lægðum í landslaginu umhverfis ána.