Flugslysaæfingar á áætlunarflugvöllum

Á fjögurra ára fresti eru haldnar æfingar á áætlunarflugvöllun landsins þar sem æft er eftir viðbragðsáætlun viðkomandi flugvallar. Þann 19. október síðastliðinn var haldin flugslysaæfing á flugvellinum við Gjögur í Árneshreppi. Sífellt fækkar því fólki, sem hefur þar heilsársbúsetu og er mikilvægt að þjálfa íbúa til að takast á við alls konar slys.

Við undirbúning á æfingum er lögð áhersla á fræðslu, bæði í formi fyrirlestra og verklegra æfinga. Farið er yfir skipulag á slysavettvangi, umönnun og bráðaflokkun slasaðra, aðkomu að flugslysi, slökkvistörf og björgun.  

Góð þátttaka var á Gjögri í undirbúningi og fræðslu fyrir æfinguna og íbúar almennt ánægðir.   Fræðslan og undirbúningurinn ætti að nýtast þeim vel í framtíðinni.    Ef alvarleg atvik eiga sér stað á svæðinu bera íbúar á svæðinu hita og þunga af fyrstu viðbrögðum, en við bestu aðstæður er rúmlega klukkustundar bið eftir aðstoð frá Hólmavík eftir lækni, sjúkrabíl og lögreglu, en á  flugvellinum á Gjögri er slökkvibifreið. Að fræðslunni að þessu sinni komu m.a. ráðgjafar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Isavia, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Landspítala og fleiri.

Æfingin á Gjögri gekk að óskum og  lagði fólkið á svæðinu sig fram við að leysa flókin verkefni, sem hugsanlega geta komið upp við flugslys.