Flugvél rann út af flugbraut á Keflavíkurfluvelli

Flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll var virkjuð á sjötta tímanum í dag vegna flugvélar sem fór út fyrir enda flugbrautar 19 í lendingu.

Um er að ræða Boeing 737 með tæplega 150 manns um borð.

Keflavíkurflugvöllur var lokaður tímabundið en ein braut hefur nú verið opnuð.

Engin slys urðu á fólki og á þessum tíma bendir allt til þess að flugvélin sé óskemmd en það er enn óstaðfest.

Búið er að flytja farþega í flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem áfallateymi Rauðakrossins tók á móti þeim.

Unnið  er að því að koma farangri frá borði en ljóst er að það mun taka nokkurn tíma.