Fræðslu- og starfsdagur samráðshópa um áfallahjálp

Í dag 27. apríl var fræðslu- og starfsdagur fyrir samráðshópa um áfallamál. Áfallahjálp er mikilvægur þáttur í skipulagi almannavarna,  sérstaklega þegar stórslys eða áföll verða. Það er því mikilvægt að undirbúa það skipulag vel. Í öllum almannavarnaumdæmum landsins eru starfræktir samráðshópar um áfallahjálp og áfallamál, en það var samráðshópur á landsvísu, sem starfar í tengslum við Samhæfingarstöðina sem skipulagði fræðslu- og starfsdaginn.

Aðal áherslan á þessum starfsdegi var lögð á viðbragðsaðilana sjálfa og þeirra aðkomu að áföllum og stórslysum.   Hvernig gengur þeim, sem koma endurtekið að erfiðum slysum og áföllum, að vinna úr þeim áskorunum sem þeir upplifa? Hver eru áhrif aukins ferðamannastraums á landinu á hjálparkerfin og hvert er hlutverk heilsugæslunnar?   Hvernig er hægt að styrkja þessi kerfi og þá sem vinna í þeim, oft undirmannaðir. Þetta voru spurningar sem leitast var við að svara.

Á fundinum var fjallað um alvarleg slys á Suðurlandi á síðustu misserum,  sem reynt hafa mjög á viðbragðsaðila, þar á meðal alvarlegt rútuslys í Eldhrauni í lok desember.  Mikilvægt er að huga að velferð þeirra sem bregðast við þegar stórslys verða.

Félagastuðningur er nokkuð sem viðbragðsaðilar hafa í auknum mæli tileinkað sér og var fjallað um það hvernig viðbragðsaðilar vinna að þeim stuðningi. Þá var fjallað um áhættuþætti sem þeir sem vinna með þolendum áfalla þurfa að huga að og hvernig við sem viðbragðsaðilar hlúum að okkur sjálfum.

Starfsdagurinn, sem haldinn var í safnaðarheimili Digraneskirkju, var mjög vel sóttur, og voru góðar umræður um þær áskoranir sem viðbragðsaðilar þurfa að takast á við.