Fréttatilkynning vegna COVID-19

Í dag, laugardaginn 7. mars, hafa greinst fimm ný smit af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi. Þrjú þeirra eru innlend og má rekja þau til einstaklinga sem voru á hættusvæðum erlendis. Hin tilfellin eru bæði rakin til ferðalaga á skilgreindum hættusvæðum. Tveir þeirra eru á þrítugsaldri, einn á fertugsaldri, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Allir búa á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi smitaðra er því orðinn fimmtíu talsins, þar af eru sjö innanlandssmit.

Nú hafa samtals hafa 484 sýni verið greind þar af 42 í dag. Á fjórða hundrað einstaklinga voru í sóttkví á hádegi í dag. Í sóttvarnarhúsi á Rauðarárstíg dvelja tveir erlendir ríkisborgarar. Sýni var tekið úr öðrum þeirra í dag og reyndist það neikvætt. Hinn einstaklingurinn sýnir engin einkenni COVID-19 sjúkdómsins.

Leiðbeiningar landlæknis fyrir berskjaldaða einstaklinga

Leiðbeiningar Embættis landlæknis fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19 er hægt að nálgast á vef landlæknis.

Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19) eftir að fyrstu smit innanlands voru staðfest. Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 28. febrúar sl. Ekki hefur verið lagt á samkomubann.

Á upplýsingafundi Almannavarna og Embættis landlæknis með fjölmiðlum í dag var áréttað að starfsfólk sem vinnur með og sinnir einstaklingum með áhættuþætti ættu að forðast fjölmenn mannamót.

Á upplýsingafundinum ræddi Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins aukna getu heilsugæslunnar til að svara fyrirspurnum, sérstaklega í gegnum síma og á Heilsuvera.is. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fjallaði um stöðu og þróun mála hér á landi sem og erlendis og Alma Möller landlæknir fjallaði um leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fór yfir yfirstandandi verkefni almannavarna.

Upptökur af upplýsingafundum með fjölmiðlum er jafnan að finna á ruv.is og á visir.is.