Fundur í vísindaráði almannavarna

Jarðvísindamenn hittust á vísindaráðsfundi Almannavarna í dag og fóru yfir stöðu mála vegna landriss og jarðskjálftavirkni við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga.

Farið var yfir virkni á Reykjanesskaga frá síðasta fundi. Jarðskjálftavirkni mælist enn á svæðinu norðan við Grindavík og er yfir meðallagi en er þó minni en þegar hún var hvað mest í lok janúar. Stærsti skjálfti sl. viku mældist 3.2 þann 11. febrúar kl.18:46 vestan við Þorbjörn.

Dregið hefur úr landrisi á svæðinu en ennþá mælist aflögun. Mælingar hafa verið efldar við Þorbjörn, 2 nýir jarðskjálftamælar voru settir upp í vikunni sem leið, gasmælingar verða gerðar reglulega og telja vísindamenn að áfram þurfi að vakta svæðið vel.

Næsti fundur vísindaráðsins verður haldinn eftir viku að öllu óbreyttu.

Fundinn sátu: Vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, HS-Orku og Umhverfisstofnun.