Gert ráð fyrir hlaupi í Grímsvötnum

Vísindaráð almannnavarna fundaði í dag um stöðu mála í Grímsvötnum en mælingar sýna að íshellan þar sé farin að síga sem er vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum.

Íshellan í Grímsvötnum hefur nú sigið um tæpa 60 sm á síðustu dögum og hraðinn á siginu hefur verið að aukast síðasta sólarhringinn. Miðað við þessar mælingar eru allar líkur á því að vatn sé farið að streyma úr Grímsvötnum og að vona sé á hlaupi í Gígjukvísl. 

Miðað við fyrri hlaup má gera ráð fyrir að hlaupvatn komi fram við jökuljaðar á næstu tveimur dögum og muni ná hámarki á 4-8 dögum eftir það. Eins og er mælist engin aukning í rafleiðni í Gígjukvísl sem er skýrasta merki þess að hlaupvatn sé komið undan jöklinum. Veðurstofan er einnig með gasmæla við upptök Gígjukvíslar sem einnig gæfu vísbendingar um hvort hlaupvatn sé í farveginum. 

Miðað við mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum núna má reikna með að hámarksrennsli hlaupsins verði um 5000 m3/s. Slíkt hlaup hefði að öllum líkindum lítil áhrif á á mannvirki s.s. vegi og brýr. Of snemmt er þó að fullyrða um hvert umfang hlaupsins getur orðið.

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Árið 2004 sáust ummerki um upphaf hlaups 28. október og gos hófst um þremur dögum síðar, eða í lok dags 1. nóvember. Dagana á undan var skjálftahrina í Grímsvötnum til marks um að eldgos væri í vændum. Engir slíkir skjálftar hafa mælst nú.

Veðurstofan heldur áfram að vakta Grímsvötn og mun birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.

24.11. kl. 14:00

Mælingar í Grímsvötnum benda til þess að íshellan sé farin að síga. Þetta gæti verið vísbending um að Grímsvatnahlaup sé í vændum. Vísindaráð almannavarna mun funda um stöðuna síðar í dag og frekari upplýsinga er að vænta að loknum þeim fundi.

Sjá frétt á vef Veðurstofu Íslands

Mynd: Benedikt Ófeigsson