Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra á landinu hefur ákveðið að fara af hættustigi Almannavarna, sem sett var á vegna óveðurs á landinu.
Hættustigi var lýst yfir á miðnætti í gærkvöldi þegar ljóst var að veðurspá Veðurstofu Íslands sýndi ofsaveður um allt land og mikil hætta var á foktjóni og ófærð. Veðurspáin gekk eftir og kom fyrsta útkall til björgunarsveitanna um klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú í nótt. Síðan hafa björgunarsveitir um land allt sinnt rúmlega 145 verkefnum. Veðrið gekk hratt yfir og greinilegt að almenningur fór eftir ábendingum Almannavarna og viðbragðsaðila að vera ekki á ferðinni.