Haustfundur vísindaráðs almannavarna

Vísindaráð almannavarna hittist á fjarfundi 23. september þar sem virkni jarðskjálfta og landbreytingar á Tjörnesbrotabeltinu og Reykjanesskaga var rædd.  Auk þess var farið yfir niðurstöður mælinga í Grímsvötnum, Mýrdalsjökli og Kröflu.  Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR ásamt fulltrúum frá Isavia-ANS, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúum frá flestum lögregluumdæmum.

Tjörnesbrotabeltið

Jarðskjálftavirkni er jafnaði yfir meðallagi frá því að hrina hófst þann 19. júní í sumar.  Fjöldi skjálfta í hverri viku hefur þó minnkað með tímanum.  Mesta virknin hefur verið við mynni Eyjafjarðar og í Eyjafjarðarálnum, en 15. september varð skjálfi að stærð 4,6 í Skjálfanda ásamt eftirskjálftum.  Sú virkni stóð þó stutt og hefur dregið úr virkninni. Hrinan stóð hæst dagana 15.-17. september og mældust um 900 skjálftar í sjálfvirka kerfi Veðurstofunnar.

Vel er fylgst með svæðinu og er unnið að sérstökum jarðskjálftamælingum í og við Húsavík. Erfitt er að segja til um framhaldið en ljóst er að skjálftinn 15. september hefur ekki losað þá spennu sem talin er að hafa byggst upp á Húsavíkur-Flateyjar misgenginu undanfarna áratugi.

Óvissustig almannavarna vegna jarðskjálfta á norðurlandi er í gildi.

Reykjanesskagi

Dregið hefur úr jarðskjálftavirkni síðustu vikur, en um 100 jarðskjálftar mældust í síðustu viku, samanborðið við 330 vikuna á undan. Virknin hefur færst austar, að Kleifarvatni, á sl. mánuðum. Tveir jarðskjálftar yfir 3 að stærð mældust rétt vestan við Kleifarvatn þann 7. september (M3,3) og 12. september (M3,0) og fundust báðir í nærumhverfi og á Höfuðborgarsvæðinu. Jarðskjálftar af stærð M6,0-M6,5 hafa orðið í Brennisteinsfjöllum á síðustu öld þegar virkni er mikil á Reykjanesskaga. Slíkir skjálftar hafa áhrif á Höfuðborgarsvæðinu.  Veðurstofa Íslands vinnur að gerð sjálfvirkra áhrifakort sem sýna hugsanleg áhrif (tengt Mercalli skala) strax í kjölfarið á jarðskjálftum.  Landris við Þorbjörn sem túlka má sem innskotavirkni hætti um miðjan júlí, en frá því í byrjun árs hafa skipts á tímabil landriss og sigs.  Nú mælist ris við Krýsuvík en það hófst á svipuðum tíma og ris hætti við Þorbjörn. Gasmælingar eru gerðar reglulega á Reykjanesi, en engar marktækar breytingar hafa mælst.

Auk þess var kynnt verkefni sem Veðurstofan leiðir þar sem hættumat vegna eldgosa er gert á utanverðum Reykjanesskaga.  Þar er gert langtímahættumat fyrir þéttbýliskjarna, mikilvæga innviði og fjölsótta ferðamannastaði með tilliti til hraunflæðis, gjóskufalls og gasmengunar.

Óvissustig almannavarna vegna aukinnar virkni á Reykjanesskaga er í gildi.

Grímsvötn

Mælingar á hæð íshellunnar í Grímsvötnum sýna að hún hefur risið jafnt og þétt undafarna mánuði og er vatnshæðin 7,5 m hærri en í byrjun júní.  Aðeins hefur dregið úr rishraða vegna minnkandi yfirborðsleysingar. Vatnshæð í Grímsvötnum er nú áþekk því sem hún var skömmu fyrir jökulhlaupin 2004 og 2010 og hefur ekki verið hærri eftir hlaupið sem Gjálpargosið olli haustið 1996.  Því er líklegt að hlaupi úr Grímsvötnum í haust.

Jarðskjálftavirkni hefur aukist lítillega í september.  Sérstaklega er fylgst með breytingum í Grímsvötnum þar sem aðstæður núna gætu haft þær afleiðingar að eldgos hæfist í kjölfar jökulhlaups, en það gæti einnig hafist án jökulhlaups sem fyrirvara. Frekari mælingar á gasútstreymi og breytingum á yfirborði eins og jarðhita og myndun jarðhitakatla verða gerðar á næstu vikum, en yfirborðsummerki benda til aukins jarðhita við Grímsvötn.

Mýrdalsjökull

Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli er áþekk því sem mælst hefur síðustu ár.  Breytingar á yfirborði íss þar sem fylgst er með sigkötlum var kynnt sem sýnir svipaða hegðun og undanfarin ár

Krafla

Jarðskjálftavirkni í Kröflu er óveruleg en á síðasta ári komu fram merki um landris.  Risið er lítið, en vel er fylgst með þróun þess.