Jarðskjálftahrina á Reykjanesskaga

Jarðskjálftavirkni er enn yfirstandi á Reykjanesskaga þó dregið hafi örlítið úr henni og hafa nokkrir skjálftar stærri en M3 mælst í dag. Ekki er hægt að útiloka annan stóran skjálfta og er því enn aukin hætta á grjóthruni í bröttum hlíðum á Reykjanesskaganum og einnig í öðrum fjallshlíðum á suðvesturhorninu. Jarðskjálftahrinan hófst í gær með skjálfta af stærðinni 5.6 reið yfir klukkan 13:43 með upptök á Núpshlíðarhálsi, um 5 km vestan við jarðhitasvæðið í Seltúni. Engin slys eða tjón á mannvirkjum hafa verið tilkynnt.

Gróthruns varð vart á fjórum stöðum í nágrenni við upptök jarðskjálftans á Reykjanesi í gær, við Djúpavatnsleið, Keili, Trölladyngju og Vatnsskarð. Í sumum þessara tilvika mátti litlu muna að slys yrðu á fólki. Einnig eru vísbendingar um að sprungur við Krýsuvíkurbjarg hafi gliðnað og að nýjar hafi myndast.

Á áhrifasvæði jarðskjálftanna eru margar vinsælar gönguleiðir og nú þegar vetrarfrí er að hefjast í skólum er líklegt að fjölskyldur nýti sér næstu daga til útivistar. Fólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát undir bröttum hlíðum og að fara að öllu með gát. Tilkynna má grjóthrun eða skriður inn til Veðurstofunnar með því að senda okkur skilaboð á Facebook eða hringja í 522-6000 og biðja um náttúruvárvakt Veðurstofunnar. Skriðusérfræðingar Veðurstofunnar eru við störf á vettvangi næstu daga til að kortleggja afleiðingar skjálftanna og meta hættuna á frekara grjóthruni og skriðum.