Jarðskjálftaráðstefna á Húsavík

Ráðstefna um jarðskjálfta á Norðurlandi stendur yfir á Húsavík dagana 31. maí – 3 júní. Markmið ráðstefnunnar er að taka stöðuna á rannsóknum á jarðskjálftum á Norðurlandi, orsökum þeirra, eðli og áhrifum, hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna og aðgerðum til að draga úr tjóni á fólki og samfélagslegum innviðum vegna stórra jarðskjálfta sem gætu orðið á svæðinu. Fjallað verður um nýjustu rannsóknir á jarðskjálftum á svæðinu og á ráðstefnunni verða auk vísindamanna aðilar meðal annars frá sveitarstjórnum, almannavarnanefndum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, verkfræðingar, tæknifræðingar og fólk úr samfélags- og skipulagsfræðum. Á ráðstefnunni verða fyrirlestrar um rannsóknir á jarðskjálftum og hagnýting þeirra til þróunar hættumats og jarðváreftirlits. Þessi hluti ráðstefnunnar er haldinn á ensku.

Fimmtudaginn 2.júní frá 14:30 – 18:00 verður opinn fundur á íslensku þar sem umræða fer fram um jarðskjálftamál. Sérfræðingar í rannsóknum á jarðskjálftum, jarðváreftirliti, almannavörnum, stóriðju, fólk úr stjórnsýslunni, heilbrigðis- og samfélagsgeiranum og almenningur munu eiga samræðu um jarðskjálfta, viðbrögð og ýmsan viðbúnað og fer þessi hluti ráðstefnunnar fram á íslensku. Þar verður m.a. fjallað um jarðskorpuhreyfingar á Norðurlandi og jarðskjálftahættuna þar, skammtímaviðvaranir, jarðváreftirlit og viðbragðsáætlanir.

skjálfti