Mesti fjöldi COVID-19 smita sem greinst hefur á þessu ári.

Í dag greindust 44 smit, 38 innanlands og 6 á landamærunum. Er þetta mesti fjöldi sem greinst hefur á einum degi á þessu ári. Eftir gærdaginn eru 163 manns í einangrun og 454 í sóttkví, fastlega má búast við að þessi tala hækki á næstu dögum.

Í ljósi stöðunnar vilja almannavarnir hvetja fólk sem kemur frá útlöndum og býr hér á landi eða hefur tengsl inn í íslenskt samfélag, að fara í skimun og halda sig til hlés þar til niðurstöður skimunar liggja fyrir.

Rauði krossinn hefur opnað nýtt farsóttarhús, Rauðará, fyrir fólk sýkt af COVID-19 þar sem farsóttarhótelið Lind var orðið svo til fullt og búist er við áframhaldandi fjölda sýktra á næstu dögum.