Neyðarstig Almannavarna vegna snjóflóða á Neskaupstað.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi lýst yfir neyðarstigi Almannavarna vegna snjóflóða sem féllu í Neskaupsstað í morgun, mánudaginn 27.mars.

Ákveðið hefur verið að rýma önnur svæði þar sem snjóflóðahætta er talin vera, bæði á Neskaupstað og á Seyðisfirði. Fjöldahjálparstöðvar hafa verið opnaðar á báðum stöðum.

Rétt eftir klukkan sex í morgun féll snjóflóð rétt utan við Neskaupsstað, og rétt um sjö féll annað flóð.  Seinna flóðið féll á nokkur hús. Björgunarfólk er að störfum á staðnum.

Björgunarsveitir af Austurlandi hafa verið boðaðar út, og Vegagerðin, til að ryðja leiðir fyrir björgunaraðila.

Neyðarstigi Almannavarna hefur verið lýst yfir í Neskaupstað og það eru tilmæli til íbúa þar að halda sig heima og þeim megin í húsum sem fjær eru fjallshlíð. Samhæfingarstöð Almannavarna hefur verið virkjuð.