Norrænt samstarf á sviði viðbúnaðar virkjað

Afleiðingar flóðanna í Pakistan í lok ágúst hafa enn gríðarlega mikil áhrif á líf fólks í landinu og er óhætt að segja að ófremdarástand vari á staðnum þar sem um það bil þriðjungur landsins er umflotinn vatni.  

Í byrjun september sendu dönsk yfirvöld tíu sérfræðinga til Pakistan til að aðstoða yfirvöld þar í landi að tryggja að hreint vatn yrði aðgengilegt fyrir íbúa með nýjum vatnshreinsistöðvum sem Danir fóru með til landsins í byrjun september.

Nú hafa yfirvöld í Pakistan óskað eftir enn frekari aðstoð og því ákváðu Danir að hafa samband við nágranna sína í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi og virkja þar með norrænt samstarf á sviði viðbúnaðar.

Þessi lönd hafa öll svarað kallinu og undir forystu Dana heldur því verkefnið áfram með fjórum norskum sérfræðingum, þremur sænskum og tveimur Íslendingum þeim Ólafi Loftssyni og Orri Gunnarssyni. Þeir Ólafur og Orri fara til Pakistan á vegum Utanríkisráðuneytisins núna í október, gert er ráð fyrir að verkefnið standi fram í nóvember.  

Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna segir að þegar þessi ósk hafi komið til Almannavarna þá hafi ekki annað komið til greina en að leita leiða til að verða við henni og í samvinnu við Utanríkisráðuneytið hafi það gengið hratt fyrir sig.