Ofsaveðri spáð á morgun við suðurströndina

Viðvörun frá Veðurstofunni: Búist er við stormi (meðalvindi yfir 20 m/s) á landinu síðdegis á morgun og ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) við Öræfajökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjöll og í Vestmannaeyjum.
Það er hæglætisveður á landinu í dag, en á morgun syrtir í álinn, þegar djúp lægð (niður undir 940 mb) nálgast landið úr suðri.
Búist er við ofsaveðri (meðalvindur yfir 28 m/s) síðdegis á morgun með S-ströndinni. Hviður geta farið yfir 50 m/s við Öræfajökul og undir Eyjafjöllum. Úrkoma á þessum slóðum byrjar sem snjókoma, en færir sig yfir í slyddu með tilheyrandi krapa á vegum. Það verður því ekkert ferðaveður með S-ströndinni síðdegis á morgun. Versta veðrið verður syðst, en það hvessir einnig annars staðar á landinu og undir kvöld verður víða orðið norðaustan hvassviðri eða stormur (15-23 m/s) með skafrenningi og síðar snjókomu þegar úrkomubakkinn færir sig norður yfir landið.
Athygli er einnig vakin á því að á laugardaginn er útlit fyrir norðan storm með stórhríð á N-verðu landinu, en S-lands verða stöku él og skafrenningur. Austfirðir gætu sloppið framan af laugardegi í mun hægari vindi, en síðdegis á laugardag hvessir einnig þar með ofankomu. Að lokum er útlit fyrir að lægi mikið á sunnudag og létti til, en þá má búast við talsverðu frosti.

Spá fyrir vind kl. 17 föstudaginn 4. desember. Rauðir og gulbrúnir litir tákna hættulegasta vindinn. Vindaspá þessi er reiknuð af Veðurstofu Íslands með Harmonie veðurlíkaninu. Spáin uppfærist fjórum sinnum á sólarhring og má alltaf sjá nýjustu kortin á slóðinni:
http://www.vedur.is/vedur/spar/thattaspar/#teg=vindur

Frett_3122015