Óveður víða um land í dag

Veðurspáin fyrir daginn í dag virðist vera að ganga eftir og verður stormur eða rok 20-28 m/s víða í dag.

Veðrið mun ná hámarki um SV-vert landið milli kl.14-15 og ganga niður milli kl.16-18. Veðrið mun færast yfir landið til norðausturs og verður mun ná hámarki í öðrum landshlutum seinnipartinn.

Aðgerðastjórn hefur verið virkjuð á höfuðborgarsvæðinu og björgunarsveitir víða um land hafa þegar verið kallaðar út til að aðstoða vegfaraendur og einnig vegna foks.

Vegagerðin hefur lokað vegum víða vegna veðurs og færðar og er fólk beðið að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu á meðan veðrið gengur yfir.

Nokkuð hefur verið um umferðaróhöpp vegna veðursins en eftir því sem næst verður komist hefur enn sem komið er ekki verið um slys á fólki að ræða. Tvær rútur fóru út af veginum um Kjalarnes í morgun.  Í framhaldinu var fjöldahjálparstöð opnuð í Klébergsskóla og eru um hundað manns sem hafast við þar.

Í morgun lýsti Veðurstofan yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Suðurlandi en einkum er verið að fylgjast með aðstæðum á Kirkjubæjarklaustri þar sem óvenju mikið hefur snjóað undanfarna daga. Ekki er talin hætta í byggð sem stendur.

Nýjustu upplýsingar um veður, mat á snjóflóðaaðstæðum og færð er að finna á www.vedur.is og www.vegagerdin.is