Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Suðurlandi lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna úrkomu og vatnavaxta á Mýrum í Austur Skaftafellssýslu. Þjóðvegur 1 er í sundur austan við Hólmsá á Mýrum í Hornafirði. Brúin yfir Steinavötn í Suðursveit er lokuð fyrir umferð stórra bíla.
Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.
Fréttin er uppfærð klukkan 11:30: Samkvæmt Vegagerðinni þá er þjóðvegur 1 lokaður við Hólmsá á Mýrum þar sem áin flæðir yfir veginn. Ekki er útlit fyrir að vegurinn opnist fyrr en í fyrsta lagi á sunnudaginn.