Óvissustig vegna veðurs á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu lýsa yfir óvissustigi Almannavarna vegna veðurs sem hefst í nótt. Von er á austan og suðaustan hvassvirði eða hríð sem hefst um eittleytið í nótt. Búast má við skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.  Fólki er bent á að sýna varkárni og nauðsynlegt er að fylgjast með veðurspám og færð á vegum.

Ef spárnar ganga eftir verður veður orðið skaplegt um hádegi á morgun, gamlársdag.  En þó er gott að hafa í huga að fyrir miðnætti á gamlárskvöld fer veðrið að minna á sig á ný.  Samkvæmt veðurspám verður slæmt veður á nýárnótt.

Á samráðsfundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem haldinn var í dag með viðbragðsaðilum um land allt var farið yfir stöðuna og mögulegt viðbragð,  þar sem miklar líkur eru á veðrið muni hafa verulega áhrif á samgöngur á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

Mikill fjöldi ferðafólks er á landinu og því geta samgöngutruflanir haft áhrif á ferðalög þeirra, ekki síst til og fá höfuðborgarsvæðinu. Því er það algjört grundvallaratriði að þau sem þurfa að fara á milli staða fylgist með veðurspá og færð vega.  

Aðgerðarstjórnir þeirra svæða sem veðurspáin spáir versta veðri verða virkjaðar í nótt sem og samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð.

  • Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula veðurviðvörun fyrir Suðurland sjá hér.
  • Vegagerðin hefur einnig gefið út að miklar líkur eru á lokunum vega – vegagerdin.is / umferdin.is / road.is   
  • Röskun á flugi Þegar er orðið ljóst að röskun verður á flugi, best er að fylgjast með á vef flugfélaga.