Óvissustig vegna veðurs aflýst

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóra á landinu öllu aflýsa óvissustigi Almannavarna vegna veðurs sem gekk yfir landið í morgun.   

Fyrsta appelsínugula viðvörun Veðurstofunnar tók gildi kl. 6:00 og líkt og veðurspá gerði ráð fyrir þá fór lægðin hratt yfir og síðasta appelsínugula viðvörun Veðurstofunnar rann úr gildi kl. 13:30.

Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð klukkan 5:00 í morgun og lauk störfum rétt í þessu. Tveir samráðsfundir voru haldnir í dag með viðbragðsaðilum,  klukkan 6 og klukkan 10. Aðgerðarstjórnir voru virkjaðar víða um land.   

Það var greinilegt að stór hluti fólks tók tillit til veðurviðvarana og ákvað að halda kyrru fyrir á meðan versta veðrið gekk yfir. Umferð á vegum var mun minni en hefðbundið er og því lítið um óhöpp þó einhver hafi þau verið.   

Það er ljóst að við erum komin fyrir vind í appelsínugulum viðvörunum, í bili.