Óvissustigi almannavarna aflétt á Seyðisfirði – íbúafundur haldinn

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi aflýsir óvissustigi á Seyðisfirði vegna skriða sem féllu í desember 2020.  Síðasta árið hefur verið unnið að uppbyggingu á bráðavörnum ásamt uppsetningu á mælitækjum sem nema hreyfingar í hlíðum ofan Seyðisfjarðar.  Í haust mældist hreyfing á hrygg ofan við Búðará og var lýst yfir hættustigi og nokkur hús rýmd.  Lítil sem engin hreyfing hefur mælst á hryggnum síðan í byrjun nóvember.  Mjög vel er fylgst með aðstæðum á Seyðisfirði og verður almannavarnastig endurmetið ef hættan vex t.d veðurspár eru óhagstæðar eða miklar hreyfingar mælast í hlíðum ofan Seyðisfjarðar.

Í dag, fimmtudaginn 16. desember verður haldinn íbúafundur á Seyðisfirði til kynningar á þessum áformum. Sveitarstjóri Múlaþings mun stýra fundinum. Fulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sér um kynningu og situr fyrir svörum ásamt fulltrúa frá Veðurstofu.

Fundurinn verður á Teams og hefst klukkan 17:00. Til hans verður boðað á heimasíðu sveitarfélagsins Múlaþing, mulathing.is