Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra aflýsir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.
Jarðskjálftahrina hófst rétt austan við Grímsey 8. september síðastliðinn með stærsta skjálfta hrinunnar að stærð 4.9. Sex skjálftar yfir 4.0 mældust á meðan hrinan gekk yfir en alls komu um 13.156 skjálftar inn í sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar. Stærstu skjálftarnir urðu í upphafi hrinunnar og svo fór stærðin minnkandi þar til hrinan dó út um helgina.
Þrátt fyrir að óvissustigi sé aflýst, þá má alltaf búast við jarðskjálftum á þessu svæði og er fólk áfram hvatt til þess að tryggja innanstokksmuni sem kunni að falla í jarðskjálftum.