Rútuslys við Kirkjubæjarklaustur – uppfært

Níu eru alvarlega slasaðir og einn er látinn eftir alvarlegt umferðarslys skammt vestan Kirkjubæjarklausturs um ellefuleytið í morgun. Rúta með 44 erlenda ferðamenn, auk bílstjóra og fararstjóra, lenti í árekstri við fólksbíl með þeim afleiðingum að rútan valt á hliðina. Mikil hálka var á þjóðveginum um Eldhraun þar sem slysið varð.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-SYN, fluttu þá sem slösuðust mest á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, samtals um tólf manns. Þriðja þyrlan, TF-GNA, er á leið á vettvang slyssins. Mikið álag er á bráðamóttökunni vegna slyssins.

Allir þeir sem voru óslasaðir eða lítið slasaðir hafa verið fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Kirkjubæjarklaustri þar sem verið er að hlúa að þeim. Þeir verða fluttir til Reykjavíkur eftir því sem flutningsgeta leyfir. Sjúkrabifreiðar frá Vík, Kirkjubæjarklaustri, Höfn, Hvolsvelli og Selfossi héldu strax á vettvanginn með mannskap til aðhlynningar.

Rannsókn á vettvangi slyssins stendur yfir og þjóðvegur númer eitt við Kirkjubæjarklaustur verður því lokaður þangað til henni lýkur. Vegfarendur eru beðnir um að sýna þolinmæði og biðlund. Þeim er bent á hjá leið um þjóðveg númer 204, Meðallandsveg.

Sjúkraflutningamenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sinna nú varðstöðu í Árnes- og Rangárvallasýslu. Þá aðstoða sérsveitarmenn og lögreglumenn frá LRH við almenna löggæslu á þessu svæði. Tæknideild LRH aðstoðar við vettvangsrannsókn.   Alls tóku 65 liðsmenn úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar þátt í verkefninu og aðstoðuðu á vettvangi.

Aðgerðarstjórn á Selfossi og Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð voru virkjaðar og eru enn að störfum. Samhæfingarstöðin stýrir flutningi þeirra sem eru alvarlega slasaðir inn á sjúkrastofnanir eftir því sem við á.

Rauði krossinn á Kirkjubæjarklaustri og í Reykjavík veitir þeim sem lentu í slysinu eða urðu vitni að því sálrænan stuðning.

Mynd með fréttinni er frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg